„Ég er ekki að hætta í faginu en Hárhús Kötlu er til sölu,“ segir Katla Hallsdóttir við skagafrettir.is. Það vakti athygli í vikunni þegar Hárhús Kötlu var auglýst til sölu í prentmiðlinum Póstinum.
Margir hafa velt því fyrir sér hvað sé að gerast. Katla og meðeigandi hennar, Ína Dóra Ástríðardóttir, eru sem sagt að leita að kaupanda á rótgrónu og traustu fyrirtæki.
„Ég byrjaði með Hárhús Kötlu árið 1986 á Suðurgötu 85 og tíu árum síðar eða 1996 fór ég á Stillholt 14.
Þar erum við enn. Ína Dóra kom með mér inn í þetta á sínum tíma og fyrirtækið hefur verið hér á Stillholtinu í rúma tvo áratugi. Ef við náum samkomulagi við nýjan eiganda þá hef ég hugsað mér að leigja aðstöðu á Stillholtinu og halda áfram í faginu. Ína Dóra ætlar að leita á önnur mið,“ bætti Katla við.