Bókaútgáfa á Akranesi á sér langa sögu. Mth útgáfan á Akranesi sendi nýverið frá sér þýdda glæpasögu sem er fyrirtaks lesefni fyrir þessa páska.
Bókin heitir KÖLD SLÓÐ eftir sænska höfundinn Emelie Schepp sem var útnefnd glæpasagnahöfundur ársins 2017 í Svíþjóð.
Er það annað árið í röð sem henni hlotnast sá heiður.
Um efni bókarinnar segir á kápu:
„Á köldu desemberkvöldi staðnæmist hraðlestin frá Kaupmannahöfn til Stokkhólms á aðallestarstöðinni í Norrköping. Ung kona finnst látin um borð og reynist hún vera með eiturlyf innvortis. Ferðafélagi hennar, önnur ung stúlka, er horfin sporlaust út í myrkrið. Jana Berzelius saksóknari fær málið til rannsóknar og fyrr en varir flækist hún í atburðarás þar sem skuggaleg leyndarmál fortíðar hennar minna á sig.
Henrik Levin og Mia Bolander hjá rannsóknarlögreglunni í Norrköping komast á slóð manns sem er grunaður um morð – og þá hefst kapphlaup upp á líf og dauða því Jana verður að finna morðingjann á undan lögreglunni.“
„Köld slóð“ er önnur bókin í bókaseríunni um saksóknarann Jönu Berzelius sem kemur út á íslensku en væntanlegar eru 6 bækur til viðbótar. Kristján H. Kristjánsson þýðir.
Þess má geta að Kristján var frumkvöðull að koma Jo Nesbø á kortið hjá Íslendingum á sínum tíma. Það er aldrei að vita að Emelie Schepp nái sömu vinsældum og Norðmaðurinn Nesbø.