Íbúum á Akranesi fjölgaði um rúmlega 200 á einu ári

Íbúum á Akranesi fjölgaði um 208 á tímabilinu 1. janúar 2017 og 1. janúar 2018. Íbúafjöldi á Akranesi var 7.314 í byrjun ársins 2018. Heildarfjöldi íbúa á Íslandi er 348.450 og hefur þeim fjölgað um 10.101 á milli ára.

Í byrjun árs 2017 fór íbúafjöldinn á Akranesi í fyrsta sinn yfir 7.000. Frá árinu 2011 hefur íbúum á Akranesi fjölgað um 650.

Ef litið er á Vesturlandið í heild sinni þá dregur Akranes vagninn í þeirri fjölgun sem hefur átt sér stað í landsfjórðungnum.

Á Vesturlandi öllu eru alls 16.257 íbúar og fjölgaði þeim um 328 alls. Þetta er í fyrsta sinn sem heildarfjöldi íbúa á Vesturlandi fer yfir 16.000.