Litríkur söngleikur bætist í flóruna hjá Grundaskóla

Það stendur mikið til í menningar – og tónlistarlífi Grundaskóla á næstu vikum. Um 100 nemendur koma að undirbúningi á söngleiknum SMELLUR. Verkið verður frumsýnt í Bíóhöllinn á Akranesi 19. apríl.

Um er að ræða nýjan söngleik eftir Einar Viðarsson, Flosa Einarsson og Gunnar Sturlu Hervarsson. Þeir eru allir kennarar við Grundaskóla og hafa samið fjölmarga söngleiki á undanförnum árum fyrir nemendur Grundaskóla.

Söngleikurinn SMELLUR er í anda 80´s – tímabilsins, þar sem herðapúðar, blásið hár, andlitsfarði, mixteip og margt annað lummó ræður ríkjum.

Sagan hefur því að geyma margar skemmtilegar og litríkar persónur, hraða atburðarás, kraftmikla tónlist og dans, sem allt blandast saman í skemmtilegan og litríkan hrærigraut. Það hefur verið venja að gefa út tónlist söngleikjanna á geisladiski en að þessu sinni verður hún fáanleg á Spotify án endurgjalds.

Frá árinu 2002 hafa frumsamdir söngleikir verið settir á svið í Grundaskóla þriðja hvert ár.

Frelsi: 2003
Hunangsflugur &

Villikettir: 2005
Draumaleit: 2007
Vítahringur: 2008
Nornaveiðar: 2012
Úlfur Úlfur: 2015
Smellur: 2018


SMELLUR er sjöundi
söngleikurinn sem settur verður upp af nemendum skólans og hefur áhugi nemenda aldrei verið meiri en nú. Að þessu sinni er gert ráð fyrir að um hundrað nemendur komi að verkefninu á einn eða annan hátt. Mikill metnaður er hjá aðstandendum verkefnisins að gera SMELL að eftirminnilegri sýningu.

Viðtökur bæjarbúa og annarra gesta á söngleikjum Grundaskóla hafa verið með eindæmum góðar og hafa sýningargestir alltaf verið vel á þriðja þúsund.

Verkefnin hafa notið velvilja fjölmargra fyrirtækja og einstaklinga á Akranesi og í nágrenni sem hafa styrkt þau með ýmsum hætti.