Hulda Birna hættir sem framkvæmdastjóri KFÍA

Knattspyrnufélag ÍA leitar að nýjum framkvæmdastjóra því Hulda Birna Baldursdóttir, framkvæmdastjóri félagsins, hefur sagt starfi sínu lausu.

Hulda Birna mun ljúka störfum 1. ágúst næstkomandi. Hún hættir af persónulegum ástæðum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá KFÍA. Hulda Birna tók við starfinu í ágúst árið 2016 en áður hafði Haraldur Ingólfsson verið framkvæmdastjóri félagsins.

Hulda Birna er hér með Sævari Frey Þráinssyni og Magnúsi Guðmundssyni þegar tilkynnt var um ráðningu hennar.

„Það hefur verið spennandi áskorun fyrir mig að takast á við að vera framkvæmdastjóri KFÍA, félagið sem ég er alin upp í. Það er frábær kraftur í öllu starfinu, frábærir stuðningsaðilar, þjálfarar, starfsmenn og leikmenn og miklu skiptir að félagsandinn er góður.

Ég vil þakka sérstaklega framkvæmdastjórn KFÍA, aðalstjórn og uppeldissviði fyrir frábært samstarf. Framundan er keppni í Inkasso deild karla og kvenna og það þarf að huga að mörgu í undirbúningi fyrir mótið. Norðurálsmótið, þar sem um 1500 keppendur í 7. flokki drengja leika knattspyrnu, mun einnig fara fram á Skaganum í byrjun júní nk., það er afar mikilvægt verkefni fyrir KFÍA.

Þessum verkefnum mun ég sinna af krafti ásamt öðru sem fylgir framkvæmdastjórastarfinu. Auk þess sem ég mun taka að mér tímabundið verkefni fyrir KSÍ vegna HM. Þar mun ég verða milliliður 365 miðla, KSÍ og Ölgerðarinnar með markaðssetningu á Pepsídeildinni, Inkasso deildinni og Mjólkurbikarnum. Það stefnir því í erilsamt sumar sem verður spennandi að takst á við”.