Akraneskaupstaður fékk nýverið 11,1 milljóna kr. styrk vegna verkefnsins „Vitastígur á Breið“. Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið veitir styrkinn.
Í þessu verkefni á að ljúka við um 150 metra langan stíg frá bílastæði og aðkomutorgi að áningastaðnum, yst á tanganum á Breið.
Stígurinn er liður í heildarskipulagi fyrir nýjan öflugan ferðamannastað sem Breiðin er þegar orðin og er áhersla lögð á að það verði gott aðgengi fyrir alla að svæðinu.
Í tillögu stjórnar að styrknum segir:
„Breiðin hefur menningarsögulegt aðdráttarafl, auk nálægðar við sterk náttúruöfl hafs og öldu. Heildarhugmyndin er vel hugsuð og er umræddur áfangi nauðsynlegt skref í átt að því að gera Breiðina að góðum og fjölsóttum ferðamannastað.“
Vitarnir á Breið, Akranesviti og Gamli vitinn, eru meðal helstu kennileita Akraness og hefur tekist með uppbyggingu síðustu ára að skapa mikla sérstöðu á Íslandi í ferðaþjónustu með því að opna Akranesvita fyrir almenningi. Verið er að nýta góð og sterk sérkenni, söguleg gildi og náttúru sem leiðir af sér jákvæða afspurn til samfélagsins. Akranesviti er í dag opinn allt árið um kring og voru gestir sem heimsóttu svæðið á árinu 2017 rúmlega 14 þúsund talsins.