„Við tónanna klið“ – endurflutt vegna fjölda áskorana

Vegna fjölda áskorana verða aukatónleikar til heiðurs Óðni G. Þórarinssyni í Tónbergi laugardaginn 14. apríl.

„Við tónanna klið,“ heitir verkefnið og var fullt út úr dyrum á fyrri tónleikunum í Tónbergi á dögunum. Óðinn G. Þórarinsson tónskáld og harmonikkuleikari á að baki langan og farsælan feril sem tónlistarmaður og tónlistarkennari. Eru nokkur laga hans löngu orðin landsþekkt. Má þar nefna lög eins og Nú liggur vel á mér, Heillandi vor og Blíðasti blær og verða þau flutt á tónleikunum, í bland við minna þekkt lög Óðins og enn önnur sem aldrei hafa heyrst áður, nema ef til vill við píanóið á heimili hans.

Á tónleikunum koma fram:

Hljómur, kór FEBAN, undir stjórn Lárusar Sighvatssonar. Sveinn Arnar Sæmundsson annast undirleik.
Tríó Rutar Guðmundsdóttur harmonikkuleikara, en auk hennar skipa tríóið þeir Friðjón Jóhannsson bassaleikari og söngvari og Daníel Friðjónsson trymbill.

Hljómsveitin Tamango. Hana skipa Jón Trausti Hervarsson, Ketill Bjarnason og Reynir Gunnarsson sem allir syngja og leika á saxófón, auk Lárusar Sighvatssonar sem syngur og leikur á hljómborð.

Forsala aðgöngumiða er í versluninni BJARG og er miðaverð kr. 2.000. ATH enginn posi.

Allur ágóði af tónleikunum mun renna til góðgerðarmála.