Sundkonan Inga Elín Cryer heldur áfram að bæta sig jafnt og þétt. Hún varð stigahæsti keppandinn á Ásvallamótinu í sundi sem fram fór í Hafnarfirði um s.l. helgi. Inga Elín, sem keppir fyrir Sundfélagið Ægi, fékk brons í 200 m. flugsundi, silfur í 50 m. flugsundi, gullverðlaun í 100 m. flugsundi og einnig gullverðlaun í 200 m. skriðsundi.
Inga Elín hefur æft mikið að undanförnu og er árangur hennar góður miðað við hversu mikið æfingamagn hefur verið á dagskrá hjá henni á s.l. vikum. Markmið hennar er að ná lágmarkinu fyrir Evrópumeistaramótið sem fram fer í Glasgow í Skotlandi í ágúst. Næsta stóra verkefni hennar er 20.-22. apríl þegar Íslandsmeistaramótið í 50 metra laug fer fram.