Jóhann Ársæll bætti 19 ára gamalt Íslandsmet

Skagamaðurinn Jóhann Ársæll Atlason úr keilufélagi ÍA sló á þriðjudaginn 19 ára gamalt Íslandsmet í einum leik 1. flokki pilta þ.e. 17 til 18 ára.

Jóhann fékk alls 299 stig í leik sem fram fór í 2. deild á Akranesi.

Fyrra metið sem var 298 stig setti Steinþór Geirdal árið 1999 og var því metið eldra en Jóhann er sjálfur.

Metið sem Jóhann sló var eitt af elstu Íslandsmetunum í unglingaflokki í keilu. Hann vann einnig 2. flokk í Meistarakeppni ungmenna fyrir rúmri viku og hefur því náð flottum árangri að undanförnu.

Jóhann Ársæll var hársbreidd frá því að ná 300 stiga leik sem er hæsta talan sem hægt er að fá í einum keiluleik.