„Arnór er á meðal þeirra efnilegustu í Evrópu“

Simon Thern liðsfélagi Arnórs Sigurðssonar sparar ekki stóru lýsingarorðin um unga Skagamanninn. Arnór er smátt og smátt að stimpla sig inn í baráttuna um byrjunarliðssæti hjá IFK Norrköping.

Thern segir þetta í ítarlegu viðtali við staðarblaðið Norrköpings Tidningar

 

„Að mínu mati er Arnór frábær leikmaður. Það er aðeins tímaspursmál hvenær hann verður í byrjunarliðinu. Arnór lætur flókna og erfiða hluti líta einfalt út. Ég er sannfærður um að stór lið í Evrópu munu veita honum athygli þegar hann hefur tryggt sér sæti í byrjunarliðinu. Arnór er á meðal þeirra efnilegustu í Evrópu.

Hann er með alþjóðlegt yfirbragð á leik sínum, hann hefur í raun allt sem þarf, hann metur stöðuna rétt, er fljótur að koma sér í færi, velur oftast rétt og er með frábæran skotfót. Það er auðvelt að segja við 18-19 ára stráka að þeir eigi að vera þolinmóðir en ég þekki það sjálfur að á þessum aldri þá vill maður bara spila og fá tækifæri.

Arnór mun fá tækifærið því það er erfitt að stöðva leikmann með hans hæfileika. Þegar tækifærið hans kemur þá gæti hann sprungið út og vakið athygli út fyrir Svíþjóð,“ sagði Thern m.a. í viðtali. Thern er 25 ára gamall og er fyrirliði liðsins. Thern var á sínum tíma leikmaður Heerenveen í Hollandi og þekkir því vel til bestu leikmanna Evrópu.Arnór fékk átta sinnum tækifæri með IFK Norrköping sem varamaður á síðustu leiktíð en hann hefur komið inná sem varamaður í fjórum af fyrstu fimm leikjum liðsins á þessari leiktíð.

„Arnór er mesta efni sem ég hef spilað með. Hann er með hæfileika sem þarf til að leika í bestu deildunum og ég veit að Hollendingar væru ánægðir með hann ef þeir bara vissu hvað hann er góður. Arnór líkist mér að mörgu leiti þegar ég var á hans aldri en hann bara betri en ég var þá,“ bætir Thern við í léttum tón.