Síðasta starfsár Verkalýðsfélags Akraness var viðburðaríkt en aðalfundur félagsins fór fram í gær 26. apríl.
Formaður félagsins, Vilhjálmur Birgisson, kynnti skýrslu stjórnar fyrir liðið starfsár og helstu mál sem komið hafa á borð félagsins síðasta árið. Þetta kemur fram á vef félagsins.
Afkoma félagsins á síðasta ári var afar góð eða tæpar 92 milljónir, þrátt fyrir að félagið hafi greitt um 22 milljónir út úr verkfallssjóði í verkfalli sjómanna.
Eignir félagsins eru 1.355 milljónir og þar af handbært fé um 1.165 milljónir.
Í máli Vilhjálms kom m.a. fram að næg verkefni séu framundan. Rauði þráðurinn hjá formanninum var að kjarasamningar eru lausir um næstu áramót – og félagið ætlar að undirbúa sig vel fyrir komandi viðræður.
Félagsmenn VLFA eru duglegir að nýta sér þjónustu og styrki félagsins, en í máli Vilhjálms kom fram að á síðasta ári fengu 1245 manns greiðslu úr sjúkrasjóði, 243 fengu einstaklingsstyrki greidda úr menntasjóðum, tæplega 300 manns keyptu sér Veiðikort, Útilegukort, gistimiða og slíkt, yfir 100 manns nýttu sér framtalsaðstoð félagsins og um 100 manns fóru í dagsferð eldri borgara í boði félagsins.
Ársreikningar félagsins voru lagðir fyrir aðalfundinn en afkoma félagsins á síðasta ári var afar góð eða tæpar 92 milljónir, þrátt fyrir að félagið hafi greitt um 22 milljónir út úr verkfallssjóði í verkfalli sjómanna. Eignir félagsins eru 1.355 milljónir og þar af handbært fé um 1.165 milljónir. Verkfallssjóður er rekinn með tapi í ár vegna verkfallsins, en aðrir sjóðir félagsins skiluðu góðum hagnaði og rekstur félagsins er almennt góður.
Nánar um aðalfundinn á vef Verkalýðsfélagsins.