Spennandi golfsumar fram undan á Garðavelli

Framkvæmdir við nýja og glæsilega frístundamiðstöð við Garðavöll á Akranesi hófust í upphafi ársins 2018. Nýja frístundamiðstöðin rís á sama stað og gamla klúbbhúsið stóð áður og hafa öll gömlu húsin verið fjarlægð, klúbbhúsið sem og skemman sem var þar skammt frá. Þetta kemur fram á vef Golfsambands Íslands, golf.is.

Uppbyggingarferlið mun standa fram til vorsins 2019. Verkefnið gengur samkvæmt áætlun og á undanförnum vikum hefur frístundamiðstöðin risið upp úr jörðinni með ógnarhraða.

Tæplega 500 félagsmenn eru í Leyni og hefur þeim fjölgað jafnt og þétt undanfarin 15 ár. Skráningar í klúbbinn fyrir árið 2018 ganga vel og það ríkir mikill hugur í félagsmönnum.

Félagsmenn í Leyni og aðrir gestir Garðavallar verða án efa ánægðir með bráðabirgðaaðstöðuna sem sett verður upp fyrir sumarið 2018.

Guðmundur Sigvaldason framkvæmdastjóri Leynis segir að allt verði gert til þess að kylfingum líði sem best á meðan á framkvæmdum stendur.

„Stjórnendur klúbbsins óska þess að félagsmenn og gestir eigi áfram notalegar stundir hér á Garðavelli. Það þarf að leysa ýmis praktísk atriði og við gerum það með bráðabirgðahúsnæði. Hér verða gámahús reist fyrir veitingasalinn, eldhús og salerni. Hér verður hægt að taka mót allt að 80 gestum í einu og það er í raun meira en við gátum gert í gamla klúbbhúsinu. Það verður öll þjónusta til staðar líkt og áður en umhverfið er bara annað á meðan við byggjum upp til framtíðar.“

Garðavöllur kemur vel undan vetri og fyrsta mót ársins á Eimskipsmótaröðinni fer fram á Garðavelli 18.-20. maí.

„Markmiðið er að opna völlinn í byrjun maí og aðstaðan verður opin frá fyrsta degi. Það eru engar skemmdir á vellinum eftir veturinn og við lítum björgum augum á sumarið 2018,“ segir Guðmundur Sigvaldason.