Vel heppnuð 1. maí hátíðarhöld á Akranesi – Hvað sagði „Villi Bigg“?

Fjöldi fólks mætti í gær á 1. maí kröfugönguna sem fram fór á Akranesi. Þrátt fyrir að kalt væri í veðri var hátíðin vel heppnuð  og fóru þau fram með hefðbundnum hætti. Sólin skein á göngufólkið þegar það gekk hring um miðbæ Akraness með fána og kröfuspjöld. Skólahljómsveit Akraness sá um að halda takti með tónum og slætti á meðan gengið var um bæinn.

Hátíðardagskrá var í  Verkalýðsfélags Akraness að Kirkjubraut 40. Þar söng kvennakórinn Ymur og Lionsklúbburinn Eðna sá um glæsilegar kaffiveitingar.

Formaður Verkalýðsfélags Akraness, Vilhjálmur Birgisson, flutti ræðu og í henni var komið víða við. Vilhjálmur boðar átök á vinnumarkaði í upphafi næsta árs, átök sem ekki hafa sést í marga áratugi. „Þetta er ekki hótun, heldur staðreynd,“ sagði Vilhjálmur m.a. í ræðu sinni en hana má lesa í heild sinni hér fyrir neðan.

Ræða Vilhjálms Birgissonar: 

Ég vil byrja á því að óska okkur öllum innilega til hamingju með baráttudag verkalýðsins en í dag er eins og allir vita 1. maí á því herrans ári 2018. Það þýðir ekki nema eitt að nú eru 10 ár frá því fyrrverandi forsætisráðherra Íslands hann Geir Haarde bað Guð um að blessa Ísland í kjölfar bankahrunsins.

Já hugsið ykkur það eru liðin 10 ár frá því að botnlaus græðgi hjá fámennum hópi manna í bankakerfinu orsakaði það að íslenskan þjóðin varð nánast í heild sinni gjaldþrota á einni nóttu.Við munum flest hvar við vorum þegar Geir Haarde flutti ávarp sitt 6. október árið 2008. En angist, ótti og gríðarlegur kvíði heltók alþýðu þessa lands í kjölfar efnahagshrunsins enda stökkbreyttust skuldir íslenskra heimila á einni nóttu, þúsundir launafólks misstu atvinnuna, og þúsundir misstu einnig húsnæði sitt.

Kæru félagar: Hver hefði t.d. trúað því að einungis tæpum 10 árum eftir hrun virðist allt stefna í nákvæmlega sama farið og var látið viðgangast fyrir hrun þar sem fámenn snobbelíta fjármálakerfisins og atvinnulífsins sópaði til sín ofurlaunum, bónusum og kaupréttarsamningum, allt á kostnað almennings.

Það er svo sorglegt og ótrúlegt að fjármálaelítan og hluti af atvinnulífinu ætli að reyna enn og aftur að misbjóða siðferðiskennd almennings með sjálftöku og græðgivæðingu. Það er svo mikilvægt að við gleymum aldrei þeim afleiðingum sem hrunið olli skuldsettum heimilum og alþýðu þessa lands og við megum heldur aldrei gleyma hverjir það voru sem báru ábyrgð á þeim hamförum sem íslenskur almenningur mátti þola eftir hrun.

Það er mikilvægt að rifja örlítið upp þessar afleiðingar hrunsins og þær byrðar sem lagðar voru á herðar almennings. En eins og við vitum öll þá hækkuðu verðtryggðar húsnæðisskuldir almennings um  400 milljarða vegna hrunsins. Hugsið ykkur að fjármálakerfið sem bar ábyrgð á hruninu hirti síðan uppundir 10 þúsund íbúðir af almenningi og frá árinu 2009 til 2014 voru að meðaltali 3 fjölskyldur á dag sem misstu heimili sitt. Þúsundir launafólks missti vinnuna og lífsviðurværi sitt með skelfilegum afleiðingum fyrir þá sem í því lentu.

Textinn heldur áfram hér fyrir neðan: 

Lífeyrissjóðirnir sem stigu trylltan dans með útrásinni töpuðu um 500 milljörðum og það allt vegna glórulausra fjárfestinga í fjármálafyrirtækjum og atvinnulífinu. Afleiðingar af þessu 500 milljarða tapi er að lífeyrissjóðirnir eru búnir að skerða lífeyrisréttindi launafólks á hinum almenna vinnumarkaði um tæpa 200 milljarða frá hruni, samkvæmt Fjármálaeftirlitinu. Rétt er að geta þess að lífeyrissjóðirnir töpuðu ekki einni krónu af þessu 500 milljarða tapi vegna lána til sjóðsfélaga.

Ekki má heldur gleyma að á herðar skattgreiðenda voru lagðir 440 milljarðar til að endurreisa fjármálakerfið samkvæmt frétt frá fjármálaráðuneytinu á sínum tíma.

Já, skattgreiðendur þurftu að taka á sig 440 milljarða til að endurreisa fjármálakerfið en á sama tíma fengu nýju bankarnir lánasöfnin frá gömlu bönkunum með gríðarlegum afslætti en skuldsett heimili og almenningur var síðan í mörgum tilfellum rukkaður upp í topp þrátt fyrir að nýju bankarnir hefðu fengið lánasöfnin á hrakvirði.

Viðskiptabankarnir þrír sem báru ábyrgð á þeim hamförum sem íslenskur almenningur þurfti að ganga í gegnum vegna hrunsins fengu semsagt skotleyfi á skuldsetta alþýðu, alþýðan var látin taka allan skellinn á sig. Hver er niðurstaðan hjá viðskiptabönkunum þremur vegna þessa? Jú, þeir hafa skilað tæpum 700 milljörðum í hagnað frá hruni m.a. vegna uppfærslu á eignasafninu sem þeir fengu með miklum afslætti frá gömlu bönkunum. Einnig má rekja hagnaðinn til okurvaxta, verðtryggingar og himinhárra þjónustugjalda.

Það er svo nöturlegt að stjórnvöld á hverjum tíma fyrir sig kjósi ætíð að krjúpa frekar við hreiður fjármálaelítunnar en að taka stöðu með almenningi í þessu landi.

Já hugsið ykkur að það var gefin út Rannsóknarskýrsla Alþingis í níu bindum þar sem raktar voru orsakir og afleiðingar hrunsins, meðal annars hvernig ofurlaun, bónusar og kaupaukakerfi fjármálakerfisins hafi ýtt undir áhættuhegðun stjórnenda bankakerfisins með afleiðingum sem við öll þekkjum vel. Græðgin hjá mörgum stjórnendum fjármálakerfisins var fordæma- og taumlaus.

Rétt er að geta þess að skýrsluhöfundar rannsóknaskýrslu Alþingis bentu á þá gríðarlegu meðvirkni, þöggun og gagnrýnislausu hugsun sem ríkti í íslensku samfélagi fyrir hrun hvað fjármálakerfið varðar. Allir muna eftir því fyrir hrun hvernig æðstu stjórnendur fjármálakerfisins voru bornir á gullstólum og rauðir dreglar dregnir út hvert sem þeir komu og það á sama tíma og þeir voru nánast að‘ræna bankanna innanfrá.

Já skýrsluhöfundar rannsóknarskýrslu Alþings bentu réttilega á þetta og það kom skýrt fram hjá þeim að slíkt mætti ekki gerast aftur.

Auglýsing:



Kæru vinir og félagar.

Við megum og ætlum alls ekki að taka þátt í meðvikni, þöggun og gagnrýnislausri hugsun eins og gerðist fyrir hrun. Við verðum að mótmæla því siðrofi, þeirri sjálftöku, spillingu og græðgivæðingu sem enn og aftur eru farin að skjóta föstum rótum í okkar samfélagi.

Það er svo ótrúlegt og miskunnarlaust það sem almenningi í þessu landi hefur verið boðið upp á undanfarnar vikur og ár hvað sjálftöku og græðgi varðar í ljósi þess sem gerðist hér fyrir hrun. Ég ætla að nefna nokkur dæmi um það sem hefur leitt til þess að siðferðis- og réttlætiskennd alþýðunnar er gjörsamlega að þrotum komin:

  • Framkvæmdastjóri Framtakssjóðs fékk 20 milljónir fyrir að ná þriggja ára starfsaldri. Rétt er að geta þess að lífeyrissjóðirnir eiga um 70% í sjóðnum.
  • Nokkrir aðilar fengu 90 milljóna bónus vegna uppgjörs til stjórnenda LBI sem heldur utan um eignir gamla Landsbankans.
  • Árið 2015 seldi Arion banki Símann til vildarvina á sérkjörum og högnuðust þeir um 722 milljónir á 48 dögum.
  • Allir þekkja Borgunarmálið fræga frá árinu 2015 þar sem íslenskir skattgreiðendur töpuðu milljörðum króna til fárra útvaldra.
  • Sam­keppnis­eft­ir­litið tilkynnti um þá niðurstöðu að neyt­end­ur hafi greitt 4,5 milljörðum of mikið fyr­ir bif­reiðaeldsneyti í smá­sölu bara fyrir árið 2014. Ástæðan sé sú að sam­keppni sé veru­lega skert.
  • Árið 2016  greiddi Íslandsbanki um 400 milljónir í bónusa til starfsmanna.
  • Árið 2016 tilkynnti stjórn VÍS um hækkun iðgjalda vegna slæmar stöðu en nokkrum dögum síðar tilkynnir stjórnin um 75% hækkun launa stjórnarmanna.
  • Árið 2015 fengu 20 starfsmenn gamla Straums Burðaráss greiddan bónus uppá 3,3 milljarða.

Já þetta voru nokkur dæmi um þá græðgivæðingu sem hefur heltekið suma stjórnendur íslenskra fyrirtækja á nýjan leik. En þetta er ekki eina dæmið um að  siðferðiskennd almennings í þessu landi sé gjörsamlega misboðið þegar kemur að sjálftöku stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Eigum við að skoða launahækkanir hjá sumum forstjórum á síðustu 12 mánuðum og já launahækkanir hjá embættismönnum og æðstu ráðmönnum þjóðarinnar í gengum kjararáð.

Auglýsing



Já kæru félagar förum yfir þessar launahækkanir:

  • Forstjóri N1 hækkaði í launum um 1 milljón á mánuði- Mánaðarlaun 5 milljónir.
  • Forstjóri Landsvirkjunar hækkaði í launum um 800 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 2,7 milljónir.
  • Forstjóri Eimskips hækkaði í launum um tæp 700 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 8,6 milljónir.
  • Forstjóri Símans hækkaði í launum um 433 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4 milljónir
  • Forstjóri Reita hækkaði í launum um 400 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 3,7 milljónir
  • Forstjóri HB Granda hækkaði í launum um 330 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4,2 milljónir
  • Forstjóri Sjóvá hækkaði í launum um 242 þúsund á mánuði!- Mánaðarlaun 4,1 milljón.
  • Forstjóri Íslandspósts hækkaði í launum um 252 þúsund á mánuði- Mánaðarlaun 1,7 milljónir.
  • Forstjóri Landsnets hækkaði í launum um 180 þúsund á mánuði- Mánaðarlaun 1,8 milljónir.
  • Sjónvarpsstjóri RÚV hækkaði í launum um 250 þúsund á mánuði-Mánaðarlaun 1,8 milljón
  • Kjararáð hefur hækkað laun æðstu stjórnenda og embættismanna ríkisins um 200 til 400 þúsund á mánuði með afturvirkni í allt að tæp 2 ár.

Á þessum fréttum síðustu tveggja ára eða svo sést að græðgin, okrið, spillingin, óréttlætið og misskiptingin grasserar aftur á fullu í íslensku samfélagi og allt á kostnað almennings.

Það sorglega í þessu öllu saman er að þessir aðilar sem raka til sín auði á kostnað alþýðunnar komast alltaf upp með það. Þeir virðast vera búnir að læra inn á það að það hvessir hressilega í þjóðfélaginu í nokkra daga og síðan lygnir á nýjan leik. Kannski er uppáhaldslagið þeirra með Ragnari Bjarnasyni þar sem segir í textanum:

„Það hvessir, það rignir en það styttir alltaf upp og lygnir…“

Nú verða þingmenn og ráðamenn þessarar þjóðar að koma íslenskum almenningi til bjargar og taka á þessum gripdeildum. Það þýðir ekkert fyrir ráðamenn að koma alltaf fram þegar svona spillingarmál koma upp og segja þetta er klúður, okkur er misboðið og þeirra er skömmin og gera svo aldrei neitt. Hættið að tala og farið að standa með almenningi í þessu landi því yfirelíta landsins virðist líta á almennt alþýðufólk sem grálúsugt og það eigi bara að brosa, borga og þegja!

Kæru félagar

Það er með sanni hægt að segja að hræsnin, misskiptingin og óréttlætið ríði ekki við einteyming í þessu landi okkar.

Lágmarkslaun nema núna 300 þúsund krónum á mánuði og eftir standa rétt rúmar 230 þúsund krónur þegar skatturinn og iðgjald í lífeyrissjóð hafa verið dregin frá. Það er gjörsamlega óskiljanlegt að af 300 þúsund króna lágmarkslaunum skuli fólki vera gert að greiða rúmar 52.000 krónur í skatt.

Að hugsa sér að hér séum við með lágmarkslaun sem duga engan veginn fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út og það vantar mikið upp á að svo sé.

Það er lýðheilsumál að lágmarkslaun dugi fyrir þeim framfærsluviðmiðum sem hið opinbera hefur gefið út. Það vita það allir sem hafa gengið í gegnum það að eiga ekki fyrir mat handa sér og sinni fjölskyldu hvaða andlegu og líkamlegu áhrif það getur haft. Það hefur ekki bara áhrif á einstaklinginn heldur alla fjölskylduna, líka börnin. Því er það risastórt verkefni að lagfæra og leiðrétta kjör þeirra sem höllustum fæti standa í íslensku samfélagi og þetta verkefni verða stjórnvöld, verkalýðshreyfingin og við öll sem samfélag að ráðast í.

Það er svo sorglegt að horfa upp á þá skefjalausu misskiptingu sem fær að þrífast í okkar samfélagi. Það er bláköld staðreynd þótt sumir ráðamenn vilji alls ekki viðurkenna það að það eru alltof margir sem ná alls ekki endum saman frá mánuði til mánaðar vegna þess að laun og bætur eru alltof lág.

Það vita það allir sem vita vilja að það er útilokað fyrir einstakling að lifa á lágmarkslaunum eða á bótum frá almannatryggingarkerfinu, það er gjörsamlega útilokað.

Ég hef sagt það oft í ræðu, riti og á þingum Alþýðusambands Íslands að það er verkalýðshreyfingunni, Samtökum atvinnulífsins og í raun samfélaginu öllu til skammar þau lágmarkslaun sem nú eru í boði. Ég hef líka sagt að ef fyrirtæki hafa ekki burði til að greiða starfsfólki sínu laun sem gera þeim kleift að halda mannlegri reisn og framfleyta sér og sínum þá hafa þau ekki tilverurétt á íslenskum vinnumarkaði.

Ég skil reiði og gremju lágtekjufólks fyllilega enda þekki ég það af eigin raun að hafa þurft  að reyna að framfleyta mér og minni fjölskyldu á lágmarkslaunum og þeim angistarárum mun ég aldrei gleyma.

Það er svívirðilegt að í hvert sinn sem kjarasamningar verkafólks eru lausir þá skella þessir snillingarnir frá greiningardeildum bankanna, Samtökum atvinnulífsins, Seðlabankanum og fjármálaráðuneytinu á fóninn hræðsluáróðursplötunni þar sem lög eins og „ekki má ógna stöðugleikanum“ og „stöðva verður höfrungahlaupið“ er að finna!

Það er hins vegar athyglisvert að fulltrúar Samtaka atvinnulífsins, Seðlabankans, fjármálaráðuneytisins og ráðamenn almennt hafa ekki miklar áhyggjur af „stöðugleikanum“ né „höfrungahlaupinu“ þegar kjararáð hækkar laun um hundruð þúsunda á mánuði með afturvirkni sem nemur milljónum eins og ég rakti hér í ræðu minni áðan

Það ömurlegasta í þessu öllu saman er þegar einstaka aðilar innan verkalýðshreyfingarinnar, Samtaka atvinnulífsins og ráðamenn slá á brjóst sér og segja „við höfum hækkað lágmarkslaun sérstaklega umfram aðra.“

Fyrirgefið orðbragðið kæru félagar en þvílíkt bull og kjaftæði!

Skoðum þetta bull nánar. Árið 1996 eða fyrir 22 árum var lágmarkstaxti verkafólks á Íslandi 60 þúsund á mánuði en í dag er lágmarkstaxtinn kominn í 266 þúsund og hefur hækkað um 206 þúsund á mánuði á þessu 22 árum sem þýðir að lágmarkslaunataxtar verkafólks hafa hækkað að meðaltali um rétt rúmar 9.000 krónur á ári þessi 22 ár.

Já þið tókuð eftir því sem ég sagði áðan að kjararáð hefur að undanförnu verið að hækka laun þeirra sem heyra undir kjararáð á einu bretti þetta frá 200 þúsund á mánuði upp í allt að 400 þúsund á mánuði með afturvirkni sem nemur allt að 2 árum.

Ég nefndi líka að í fyrra hafi laun fjölmargra forstjóra íslenskra fyrirtækja hækkað á mánuði frá tæpum 200 þúsundum upp í tæpa 1 milljón. Já þessar ofurlaunahækkanir komu til þessara aðila á einu ári, en verkafólk hefur á 22 árum hækkað um einungis 206 þúsund eða rúmar 9 þúsund krónur að meðaltali á ári. Þessu til viðbótar er hægt að nefna að þingfararkaupið var árið 1996 195.000 þúsund en er í dag komið í 1,1 milljón og hefur á þessum 22 árum hækkað um 905 þúsund á mánuði en eins og áður sagði hafa lágmarkslaun hækkað á sama tímabili um 206 þúsund á mánuði.  Það er rétt að nefna að krónutölumunur á milli þingfarakaups alþingsmanna og lágmarkslaunataxta verkfólks var árið 1996 135.000 krónur en í dag er þessi krónutölumunur orðinn 834.000. Hugsið ykkur að krónutölumunurinn á milli lágmarkslauna og þingfarakaupsins hefur hækkað frá 135.000 sem hann var 1996 í 834.000 þúsund sem munurinn er í dag.

Ég skoðaði einnig launabreytingar í krónum talið hjá nokkrum forstjórum íslenskra fyrirtækja sem og lágmarkslaun verkafólks frá árinu 1998 til ársins 2018 eða á síðustu 20 árum.

  • Árið 1998 voru mánaðarlaun forstjóra Eimskips 2,3 milljónir á mánuði í dag eru þau 8,3 milljónir og hafa því hækkað í krónum talið um 6 miljónir á þessum 20 árum.
  • Árið 1998 voru mánaðarlaun forstjóra N1 1,6 milljónir á mánuði í dag eru þau tæpar 6 milljónir og hafa því hækkað í krónum talið um 4,4 miljónir mánuði á þessum 20 árum.
  • Árið 1998 voru mánaðarlaun forstjóra VÍS 1,4 milljónir á mánuði í dag eru þau 5 milljónir og hafa því hækkað í krónum talið um 3,6 miljónir á mánuði á þessum 20 árum.
  • Árið 1998 voru mánaðarlaun forstjóra Icelandair Group 1,2 milljónir á mánuði í dag eru þau 4,6 milljónir og hafa því hækkað í krónum talið um 3,4 miljónir á mánuði á þessum 20 árum.
  • Árið 1998 voru lágmarkslaun verkafólks 70 þúsund á mánuði í dag eru þau 280 þúsund á mánuði og hefur því hækkað á þessum 20 árum um 210 þúsund krónur.

Hugsið ykkur að það tekur forstjóra Eimskips 6 klukkustundir að vinna sé inn mánaðarleg lágmarkslaun verkafólks og það tekur þennan sama forstjóra einungis rúma 8 daga að ná árslaunum verkafólks á lágmarkslaunum!

Já við höfum hækkað lægstu launin sérstaklega segja Samtök atvinnulífsins, æðstu ráðamenn og fulltrúar Seðlabankans og forseti ASÍ. Þvílíkur brandari eins og sést á þessum dæmum sem ég hef nefnt og þessi brandari um að lægstu laun hafi hækkað sérstaklega umfram aðra hópa í íslensku samfélagi myndi sóma sér vel í uppistandi hjá t.d. Ara Eldjárn.

Ég hef sagt það áður og segi það enn og aftur: prósentulaunahækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis í íslensku samfélagi eins og sést á þessum gríðarlega krónutölumun sem þeir tekjuhærri fá umfram þá tekjuminni.

Já prósentuhækkanir eru aflgjafi misskiptingar og óréttlætis og við eigum að hætta að semja með prósentum og taka þess í stað krónutöluhækkanir enda verslum við ekki með prósentum heldur krónum.

Kæru félagar, við í Verkalýðsfélagi Akraness höfum barist fyrir því að tekið sé á því óréttlæti sem íslenskt verkafólk hefur þurft að þola um áratuga skeið. Óréttlæti. sem meðal annars lýtur að okurleigu, okurvöxtum, verðtryggingu og því að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu. Ég vil upplýsa ykkur um að bara það að húsnæðisliðurinn sé inni í lögum um vexti og verðtryggingu hefur orsakað það að færðir hafa verið um 50 milljarðar á síðustu 12 mánuðum yfir til fjármálaelítunnar og á síðustu 3 árum hafa verið færðir tæpir 130 milljarðar frá skuldsettum heimilum yfir til fjármálaaflanna. Já takið eftir ef húsnæðisliðurinn hefði ekki verið inni í neysluvísitölunni hvað vexti og verðtryggingu varðar væru íslensk heimili 130 milljörðum betur stödd hvað síðustu 3 ár varðar.

En takið eftir kæru vinir nú er von, von um að hægt verði að kalla eftir róttækum kerfisbreytingum íslensku launafólki og íslenskum heimilum til hagsbóta. Þessi von byggist á því að núna hafa orðið stórkostlegar breytingar til góðs í íslenskri verkalýðshreyfingu en með sigri Sólvegar Önnu til formanns í Eflingu og sigri Ragnars Þórs í VR hefur skapast nýr meirihluti innan Alþýðusambands Íslands.  Meirihluti sem hafnar samræmdri láglaunastefnu undir forystu forseta ASÍ, láglaunastefnu sem byggð er á svokölluðu Salek samkomulagi þar sem til stendur að fórna mikilvægasta rétti launafólks sem er frjáls samningsréttur. Þessi meirihluti ætlar líka að beita sér af alefli fyrir lækkun vaxta, afnámi verðtryggingar og því að húsnæðisliðurinn verði tekinn úr lögum um vexti og verðtryggingu. Þessi meirihluti vill líka beita sér fyrir því að tekið sé á þeirri græðgivæðingu og þeim tryllta leigumarkaði þar sem leiguverð hefur t.d. hækkað um 10,6% á síðustu 12 mánuðum og ef skoðuð er hækkun á leiguverði frá 2011 þá kemur í ljós að leiguverð hefur hækkað um 81%.

Það er svo nöturlegt og sorglegt að sjá hvernig hin ýmsu leigufélög hafa verið að misnota slæma stöðu leigjenda, meðal annars þegar leigjendum er tilkynnt með afar stuttum fyrirvara að leigan sé að hækka um tugi þúsunda og við erum með splunkuný dæmi þar sem leigjendum hér á Akranesi er boðinn leigusamningur til 12 mánaða þar sem leigan hækkar á einu bretti um 30 þúsund á mánuði.  Við erum líka með dæmi um fólk sem biður um lengri leigusamning og þá hækkar leigan ekki um 30 þúsund á mánuði heldur 45 þúsund.  Þessu til viðbótar er allavega eitt leigufélag hér á Akranesi sem krefst þess að ef fólk flytur sig á milli íbúða hjá leigufélaginu t.d. úr minni eða stærri íbúð þá er fólk krafið um þjónustugjald sem nemur 120.350 kr.  Rétt er að geta þess að ekkert er getið um þetta gjald í leigusamningum fólks og ég kalla þetta ekkert annað en fjárkúgun.

Kæru félagar það er von, von sem byggist á því að Verkalýðfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn hafa náð yfir 53% meirihluta í ASÍ. Þessi félög hafa myndað bandalag fyrir komandi kjarasamninga og eru þessi félög tilbúin að láta kné fylgja kviði við að knýja fram t.d. lagasetningu á þessi leigufélög þar sem hagsmunir leigutaka verði tryggðir betur.  Einnig ætla þessi félög að beita sér af alefli fyrir hækkun á ráðstöfunartekjum lág- og millitekjufólks. En til að það gangi eftir þarf að framkvæma umtalsverðar kerfisbreytingar í íslensku samfélagi, kerfisbreytingar á forsendum almennings á kostnað fjármálaelítunnar.

Það er rétt að geta þess að fulltrúar þessara stéttarfélaga hafa verið að funda nokkuð stíft að undanförnu til að undirbúa sig fyrir það að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði verða lausir um næstu áramót og já við ætlum að mynda bandalag þar sem kallað verður eftir róttækum breytingum íslensku lág- og millitekjufólki til heilla í næstu kjarasamningum.

Ég vil líka upplýsa ykkur um að formenn þessara stéttarfélaga funduðu með forsætisráðherra fyrir nokkrum vikum  þar sem við sendum skýr skilaboð um að við værum tilbúin að ganga frá samfélagssáttmála sem myndi jafnvel gilda í 3 til 4 ár, sáttmála sem byggður yrði á hagsmunum alþýðunnar og að í þessum samfélagssáttmála yrðu einnig hagsmunir lág-og millitekjufólks sérstaklega hafðir að leiðarljósi. Til að þessi sáttmáli geti orðið að veruleika þarf aðkoma stjórnvalda að verða mjög mikil enda myndi þessi sáttmáli kalla á umtalsverðar kerfisbreytingar.

Í þessum samfélagssáttmála þyrfti t.d. eftirfarandi atriði að koma fram:

  • Samið verði í krónutölum en ekki prósentuhækkunum
  • Skattbyrgði lág-og millitekjufólks verðu lækkað
  • Vextir verði lækkaðir, verðtrygging verði afnumin og húsnæðisliður í lögum um vexti og verðtryggingu verði tekinn út.
  • Lögum verði breytt þannig að lífeyrissjóðirnir hafi heimild til að stofna leigufélög í 100% eigu þeirra, leigufélög sem verði lítt hagnaðardrifin.
  • Launafólki verði heimilt að ráðstafa 3,5% úr iðgjaldi í samtryggingu í frjálsa séreign og launafólk hafi heimild til að niðurgreiða húsnæðislán sín með þessum 3,5% kjósi það svo og/eða að safna fyrir útborgun í fyrstu fasteign.
  • Barnabætur hækki verulega
  • Kostnaðarhlutdeild sjúklinga í heilbrigðiskerfinu lækki verulega
  • Lífeyriskerfið verði endurskoðað m.a. með auknu lýðræði sjóðsfélaga og hagsmunir sjóðsfélaga verði hafðir að leiðarljósi
  • Tekinn verði upp þrepaskiptur persónuafsláttur þar sem markmiðið verði að lækka skattbyrði lág- og millitekjufólks.
  • Komið verði lagasetningu á þann tryllta leigumarkað sem nú ríkir hér á landi þar sem græðgin virðist hafa heltekið hin ýmsu leigufélög.

Það er morgunljóst að með þessum atriðum yrði hægt að hækka ráðstöfunartekjur lág- og millitekjuhópa umtalsvert og núna er boltinn hjá stjórnvöldum en rétt er að geta þess að það er útilokað að koma á sátt á íslenskum vinnumarkaði byggðum á þessum kerfisbreytingum án að komu stjórnvalda. Formenn þessara stéttarfélaga sem mynda meirihluta innan ASÍ gerðu forsætisráðherra á þessum fundi einnig grein fyrir því að forysta ASÍ með forseta ASÍ í broddi fylkingar fer alls ekki með samningsumboð fyrir þessi stéttarfélög, hvorki er lýtur að viðræðum við stjórnvöld né við Samtök atvinnulífsins.

Kæru vinir og félagar, alþýða þessa lands er reið og henni er misboðið vegna alls þessa og líka vegna þess að alþýðunni er ætíð lofað fyrir Alþingiskosningar að tekið verði á þessari misskiptingu, óréttlæti og ójöfnuði en síðan gerist ekkert. Fagurgali og loforð stjórnmálamanna ómar um allt  fyrir hverjar kosningar, loforð eins og nú skuli koma á heilbrigðum fjármálamarkaði, afnámi verðtryggingar á neytendalánum til einstaklinga og heimila eða kosningaloforðið upp á að sett yrði á fót myntráð sem myndi leiða til þess að vextir á Íslandi myndu lækka um 2 til 4% en slík lækkun vaxta átti að skila almenningi með 30 milljóna húsnæðislán auknum ráðstöfunartekjum upp á 60 þúsund á mánuði. Hvar man t.d. ekki eftir loforði um að taka þurfi húsnæðisliðinn úr lögum um vexti og verðtryggingu eða svokallaða Svissnesku leiðina sem átti að auðvelda ungu fólki að fjármagna útborgun í fyrstu fasteign. Allt svikið, allt!  Það er löngu tímabært að stjórnvöld fari að vera á tánum en ekki hnjánum gagnvart fjármála-og embættiselítunni sem öllu vill ráða og stjórna hér á landi!

Munum kæru félagar að okurleiga, okurvextir, verðtrygging, misskipting, óréttlæti og ójöfnuður er ekkert náttúrulögmál heldur mannanna verk og öllu þessu er hægt að breyta, eina sem til þarf er kjarkur og vilji og trúið mér að Verkalýðsfélag Akraness, VR, Efling og Framsýn hafa þann kjark, þor og vilja til að knýja fram þær bráðnauðsynlegu kerfisbreytingar, kerfisbreytingar þar sem hagsmunir alþýðunnar verða teknir framyfir hagsmuni fjármálaelítunnar á Íslandi. Við viljum, getum og ætlum að knýja fram þessar kerfisbreytingar og það verður gert með góðu eða illu.

Ég vil segja við stjórnvöld, ef þið ekki hlustið á grasrótina í íslenskri verkalýðshreyfingu sem hefur um allanga hríð öskrað á kerfisbreytingar þar sem þeirra hagsmunir verði hafðir að leiðarljósi þá munu stjórnvöld sjá átök á íslenskum vinnumarkaði í upphafi næsta árs, sem ekki hafa sést í marga áratugi!  Þetta er ekki hótun, heldur staðreynd!

Stöndum saman öll sem eitt því við höfum fengið nóg!

Takk fyrir mig. Vilhjálmur Birgisson.