Steinar tryggði ÍA sigur gegn Leikni

Steinar Þorsteinsson var hetja ÍA gegn Leikni í 1. umferð Inkasso-deildarinnar í knattspyrnu í dag. Sigurmarkið skoraði framherjinn á 60. mínútu. Skagamönnum er spáð sigri í Inkasso-deildinni og í liðinu eru margir frábærir knattspyrnumenn sem gaman er að horfa á.

Fjölmenni mætti á leikinn og var góð stemning í Akraneshöllinni þar sem leikurinn fór fram.

Andri Adolphsson kom inná sem varamaður í liði ÍA undir lok fyrri hálfleiks. Andri er samningsbundinn Val en er í láni hjá ÍA. Skagamaðurinn er glaður að fá tækifæri með ÍA.

„Ég er stoltur að vera hluti af þessu frábæra liði. Það var skemmtilegt að fá að koma inn á og spila með góðum og gömlum félögum. Ég reyni bara að hafa gaman af þessu og vonandi get ég skemmt áhorfendum í leiðinni,“ sagði Andri en hann var maðurinn á bak við mark ÍA þar sem hann splúndraði vörn Leiknis með leikni sinni.

Frábært að halda hreinu

„Við vissum að Leiknismennirnir yrðu þéttir og þetta sem þeir lögðu upp með er eitthvað sem við getum átt von á frá fleiri liðum.  Það er frábært að halda hreinu en við hefðum átt að nýta færin okkar betur – sérstaklega í seinni hálfleik,“ sagði Jóhannes Karl Guðjónsson þjálfari ÍA.