Styrk stjórn í fjármálum er grunnurinn að því að hægt sé að bæta þjónustu við íbúa og byggja upp innviði sem gera lífið betra og styrkja stoðir atvinnulífsins. Fjárhagsstaða Akraneskaupstaðar er sterk og hefur staðan styrkst á kjörtímabilinu sem nú er að renna sitt skeið á enda.
Þegar skoðuð er þróun fjármála sveitarfélagsins frá árinu 2012 – 2017 má sjá að skuldir sem hlutfall af rekstrartekjum hafa lækkað úr 135% niður í 93%. Þetta hlutfall var að meðaltali 153% fyrir sveitarfélög á Íslandi árið 2016.
Samningur við ríkið um að taka yfir lífeyrisskuldbindingar dvalarheimilisins Höfða er stærsti þátturinn í þessum viðsnúningi sem og markviss niðurgreiðsla skulda.
Þessi breyting þýðir að kaupstaðurinn getur nýtt þá fjármuni sem áður þurfti að taka frá sjóði til þess að eiga fyrir lífeyrisskuldbindingunni, til þess að byggja upp og bæta þjónustu.
Byggjum upp
Í lok árs 2017 átti kaupstaðurinn um 1,8 milljarða króna í sjóðum og miðað við áætlanir til ársins 2021 er gert ráð fyrir fjárfestingu upp á 2,1 milljarða sem verða fjármagnaðir með handbæru fé, ekki þarf að fara í lántöku með tilheyrandi kostnaði.
Þrátt fyrir miklar framkvæmdir verður fjárhagsstaða bæjarins sterk í lok ársins 2021 gangi áætlanir eftir.
Á grunni þess árangurs sem hefur náðst eru nú hafnar endurbætur gatna og uppbygging göngu-, hjóla og reiðstíga. Þá er í byggingu frístundamiðstöð við Garðavöll sem mun bæta aðstöðu til frístundastarfs fyrir alla aldurshópa.
Áframhaldandi endurnýjun gatna og stíga, uppbygging á þjónustukjarna fyrir aldraða við Dalbraut með þjónustuíbúðum og aðstöðu til félagsstarfs, bygging á nýju fimleikahúsi og uppbygging við Jaðarsbakka ásamt því að gera Sementsreitinn byggingarhæfan eru meðal þeirra verkefna sem gert er ráð fyrir í fjárfestingaráætlun.
Verkefni sem við teljum einnig mikilvægt að ráðast í á næsta kjörtímabili með hliðsjón af spá um þróun íbúafjölda er bygging á nýjum leikskóla og bygging á nýjum íbúðakjarna fyrir fólk með fötlun.
Sjálfstæðisflokkurinn mun áfram sýna ábyrgð í stjórnun fjármála bæjarins til hagsældar fyrir bæjarbúa.
Sandra Margrét Sigurjónsdóttir og Ólafur Adolfsson
Höfundar skipa 2. og 4. sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akranesi til bæjarstjórnarkosninga í vor.