Akranes stendur fjárhagslega best

Akranes stendur best og Hafnarfjörður verst þegar fjárhagur stærstu sveitarfélaga landsins er borinn saman. Þetta er niðurstaða greiningar Samtaka atvinnulífsins. Samtökin telja að góður rekstur sveitarfélaga skili sér í lægri skattheimtu. Frá þessu er greint á vef RÚV.

Samtökin skoðuðu fjárhag tólf stærstu sveitarfélaganna, eða þeirra sem eru með yfir fjögur þúsund íbúa. Þau skoðuðu níu mismunandi þætti í rekstri sveitarfélaganna, svo sem eiginfjárhlutfall, skuldir, tekjur, útgjöld og aðra þætti.



Sveitarfélögin fengu svo einkunn fyrir frammistöðu í hverjum lið fyrir sig. Heilt yfir kom Akranes best út, næst kom Seltjarnarnes og svo Garðabær. Í þremur neðstu sætunum eru hins vegar Reykjanesbær, Reykjavík og Hafnarfjörður sem rekur lestina.