Ágústa og Guðni afhentu ómetanlegt filmusafn

Ljósmyndararnir Ágústa Friðriksdóttir og Guðni Hannesson hafa á undanförnum áratugum safnað gríðarlega mikilvægum upplýsingum um sögu Akraness.

Ágústa og Guðni afhentu á dögnunum filmusafn sitt til Ljósmyndasafns Akraness. Þetta kemur fram á vef Akraneskaupstaðar.

Filmusafnið er frá þeim tíma er þau starfræktu Myndsmiðjuna eða allt frá upphafsárinu 1994 fram til 2004.

Mikill hluti myndanna sem þau Ágústa og Guðni hafa tekið eru stúdíómyndir auk þess sem eru einkar atorkusöm við að mynda bæjarbrag og sögu Akraness.

Safnið er viðamikið og spannar rúma 10 hillumetra. Síðar munu bætast við kópíur og stafrænar myndir. Það má því með sanni segja að Skagamenn hafi dottið í lukkupottinn með afhendingunni því einkaskjalasafn af þessari stærðargráðu er ómetanleg heimild um samtíma okkar.

Það ber því vel við að fá slíka afhendingu á þeim tímamótum sem Héraðsskjalasafn Akraness stendur á en í dag fagnar það 25 ára afmæli.

Ljósmyndasafn Akraness er deild í Héraðsskjalasafninu og er nýorðið 15 ára og munu söfnin setja upp sýningu á myndum þeirra Ágústu og Guðna á afmælisárinu.