Plöntuskiptidagur á Akranesi – hvað er nú það?

Plöntuskiptidagur Garðyrkjufélagsins á Akranesi er eitthvað sem áhugafólk um gróðurrækt ætti ekki að láta fara fram hjá sér. Á slíkum dögum hittist áhugafólk um ræktun þar sem það skiptist á upplýsingum, fróðleik og plöntum.

Plöntuskiptidagurinn á Akranesi er samstafsverkefni Garðyrkjufélags Íslands og Grósku Garðvöruverslun. Opið er frá 11.00-13.00 í portinu hjá Grósku Garðvöruverslun við Skagabraut 17 á Akranesi.

Verslunin gefur 12% afslátt á vörum í verslun á þessum degi fyrir félagsmenn í Garðyrkjufélagi Akraness.

Í tilkynningu frá Garðyrkjufélaginu á Akranesi kemur eftirfarandi fram: 

„Á plöntuskiptidegi skiptast félagar og gestir þeirra á plöntum, planta gegn plöntu og skiptir ekki máli hvort um er að ræða; tré, runna, matjurtir, fjölæringa, sumarblóm, stofublóm, sáðplöntur eða garðskálaplöntur – allar plöntur jafngildar.

Þátttakendur eru hvattir til að mæta með plönturnar merktar í pottum eða öðrum góðum ílátum. Þeir sem ekkert eiga til skiptanna, geta átt kost á því að kaupa plöntur af félagsmönnum gegn sanngjörnu gjaldi.“