Magnús er nýr framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs

Magnús Guðmundsson var í dag settur tímabundið sem framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.

Magnús, sem er formaður Knattspyrnufélags ÍA, hefur gegnt starfi forstjóra Landmælinga Íslands frá árinu 1999. Magnús fer í ársleyfi frá störfum sínum hjá Landmælingum til að sinna nýja starfinu.

Það var Umhverfis- og auðlindaráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, sem réði Magnús í starfið. 

Í frétt á heimasíðu Stjórnaráðs Íslands kemur eftirfarandi fram: 

Umhverfis- og auðlindaráðherra ákvað í janúar síðastliðnum að fela óháðum aðila að gera úttekt á starfsemi Vatnajökulsþjóðgarðs í samræmi við lög um opinber fjármál. Ástæðan var sú að afkoma og rekstur þjóðgarðsins var ekki í viðunandi horfi. Úttekt ráðgjafafyrirtækisins Capacent sýnir veruleg frávik í rekstri þjóðgarðsins árið 2017 miðað við fjárheimildir hans.

Ráðherra og framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs, Þórður H. Ólafsson, hafa komist að samkomulagi um að Þórður láti af störfum, en hann verður sjötugur í haust.

Þá hefur Dr. Ármann Höskuldsson, stjórnarformaður Vatnajökulsþjóðgarðs, óskað lausnar sem formaður stjórnar þjóðgarðsins til að geta helgað sig aðalstarfi sínu við kennslu og rannsóknir sem vísindamaður í jarðfræði við Raunvísindastofnun Háskóla Íslands.

Guðrún Áslaug Jónsdóttir, núverandi varaformaður stjórnar hefur tekið við störfum formanns þar til nýr stjórnarformaður þjóðgarðsins hefur verið skipaður af ráðherra.

Auglýsing


Magnús Guðmundsson. Mynd/Ágústa