Nýtt lag frá Valgerði Jónsdóttur – Minningar morgundagsins

„Ég er mjög stolt af því að segja ykkur að nýja lagið mitt er komið út á Spotify. Það er gaman að segja sögu þessa lags.

Ég samdi lagið fyrir næstum einu ári, þegar ég var í klifurferð á Hnappavöllum í Öræfasveit. Meðan hinir voru að klifra og djöflast var ég ein í náttúrusæluvímu að semja lagið og byrja á textanum, sem ég kláraði svo á næstu dögum,“ segir Valgerður Jónsdóttir í færslu á fésbókarsíðu sinni um nýtt lag sem hún var að gefa út á tónlistarveitunni Spotify.

Valgerður er tónmenntakennari við Grundaskóla og hefur verið iðinn við að spila með fjölskyldubandinu Travel Tunes.

„Ég er búin að spila lagið nokkuð oft opinberlega, ein með gítarinn og stundum kenni ég áhorfendum viðlagið, sem lærist mjög fljótt. Eldri krakkarnir í Skólakór Grundaskóla lærðu lagið og hafa sungið við ýmis tækifæri, t.d. á tónleikum með leikskólabörnum af Vallarseli,“ bætir Valgerður við en hlusta má á brot úr laginu hér fyrir neðan.

Auglýsing