Árbók Akurnesinga 2017 – fjölbreytt efni að vanda

Árbók Akurnesinga hefur að geyma fjölbreytt efni að vanda en Kristján Kristjánsson er ritstjóri bókarinnar. Bókin var að koma út og er hægt að nálgast hana í bókabúðum og víðar. Árbók Akurnesinga kom fyrst út árið 2001 og er þessi bók því sú 17. í röðinni.

„Sementsverksmiðja rís“ er ítarleg og ríkulega myndskreytt grein eftir Kristján Kristjánsson ritstjóra um aðdraganda og byggingu Sementsverksmiðjunnar, allt frá fyrstu hugmyndum fram að vígsludeginum 14. júní 1958.
Sementsverksmiðjan fagnar 60 ára afmæli á þessu ári þegar niðurrif hennar stendur yfir.

Ásmundur Ólafsson segir frá Georgshúsi, sem lengi vel var stærsta hús á Akranesi, og rifjar jafnframt upp upphaf knattspyrnuiðkunar á Skaga.

Í grein Braga Þórðarsonar um Odd Sveinsson í Brú er birt úrval af fréttaskeytum Odds frá Akranesi sem hann var landsfrægur fyrir á sínum tíma.

Kristján Gauti Karlson tók meðlimi hljómsveitarinnar Tíbrá tali um ferilinn og sveitaballamenninguna á gullaldarárum hljómsveitarinnar.

Árbókin hefur að geyma þrjá ljósmyndaþætti að þessu sinni: yfirlit um sýninguna „300 – Brunahanar“ sem Garðar Guðjónsson og Guðni Hannesson settu upp og ljósmyndir Jónasar H. Ottóssonar og Bjarna Árnasonar. Að venju eru svo birtir annálar frétta og íþrótta sem og æviágrip Akurnesinga sem jarðsungnir voru frá Akraneskirkju á síðasta ári.
AuglýsingAuglýsing