Vinkonurnar og „dúlludúskarnir“ Stefanía Líf Viðarsdóttir og Ásdís Hekla Kristjánsdóttir taka þátt í að krydda tilveruna á Akranesi á Írskum dögum.
Stefanía og Ásdís eru í 2. bekk en þær hafa staðið í ströngu að undanförnu að koma upp „ísbúð“ á milli Víðigrundar 7 og 9.
„Þetta var ekkert flókið, við slógum bara upp Euro-brettum og söguðum krossviðsplötur framan á, skrúfuðum þær á og svo máluðum við þetta bara bleikt“ segir Stefanía Líf við Skagafréttir en hún er ný útskrifuð úr 2. bekk.
Þær stöllur fá að sjálfsögðu helstu forkólfka Akraneskaupstaðar með sér í lið við slíkt tilefni. Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri Akraness mun opna ísbúðina með formlegum hætti föstudaginn 6. júlí kl. 16.00.
„Ísinn sem verður í boði er ekta ítalskur kúluís og í boði verða tvær bragðtegundir, súkkulaði og jarðarberja. Við ætlum okkur ekkert að okra á fólki og því bjóðum við upp á mjög samkeppnishæft verð eða 100 kr. fyrir eina kúlu og 150 kr. fyrir tvær kúlur“ segir Ásdís Hekla en hún er 7 ára frumkvöðull.
Ættartréð:
Stefanía Líf Viðarsdóttir :
Foreldrar: Viðar Engilbertsson og Gyða Björk Bergþórsdóttir
Systkini: Ingunn Dís Viðarsdóttir.
Ættartréð:
Ásdís Hekla Kristjánsdóttir:
Foreldrar: Kristján Þór Guðmundsson og Hildur Hjaltadóttir
Systkini: Heiður Dís Kristjánsdóttir og Hjalti Rafn Kristjánsson
Auglýsing