Lilja Björk: „Fótbolti er það skemmtilegast í heimi“

„Fótbolti er það skemmtilegasta í heimi og þess vegna æfi ég fótbolta. Það er svo margt sem er skemmtilegt í fótboltanum, að skora mörk, félagsskapurinn, keppa og vinna leiki,“ segir hin 12 ára gamla Lilja Björk Unnarsdóttir við Skagafréttir.

Lilja Björk hefur vakið mikla athygli fyrir fótboltahæfileika sína og hún var á dögunum valin í úrvalslið á TM-mótinu í Vestmannaeyjum þar sem að allir bestu leikmenn í hennar aldursflokki voru mættar til leiks.

Skagafréttir fengu Lilju Björk til að svara nokkrum laufléttum spurningum.

Hvernig er venjulegur dagur hjá þér núna í sumar:
„Vakna snemma ef það er æfing, fæ mér svo hádegismat, stundum aftur í fótbolta, hoppa í sjóinn eða í sund og leik mér við vini mína.“

Hversu oft í viku æfir þú?
„Fer ca 6 x í viku á æfingar en svo æfi ég aukalega flesta daga. Æfi með 5.fl.kvenna og 5.fl.kk og æfi líka með 4.fl.kvk.“

Framtíðardraumarnir í íþróttinni?
„Komast í atvinnumennsku og í landsliðið.“

Hvað er það eftirminnilegasta sem hefur gerst hjá þér í leik?
„Þegar ég var ca 7 ára að keppa á móti og var einn leik í marki og skoraði sem markmaður.“

Hvert er vandræðalegasta atvikið hjá þér í leik?
„Ætli það sé ekki þegar einhver nær að klobba mig, ég þoli það ekki og ef ég ætla að skjóta og hitti ekki boltann.“

Hvaða áhugamál hefur þú fyrir utan fótbolta?
„Allar íþróttir, sjósund og horfi mikið á fótboltavideo á youtube.“

Ertu hjátrúarfull? Ef svo er hvernig?
„Nei.“

Hvað var skemmtilegast við að taka þátt í ™ mótinu í Eyjum – og hvernig tilfinning er að vera valinn í úrvalslið mótsins?

„Það var skemmtilegast að skora mörk, keppa, frábær félagsskapur og bara allt æðislegt og geggjuð tilfinning að vera valin í úrvalsliðið og fá bikar. En ég vissi ekki að ég hefði verið valin í úrvalsliðið fyrr en viku eftir mótið því við misstum af lokahófinu.“

Staðreyndir:

Nafn: Lilja Björk Unnarsdóttir.
Aldur: 12 ára.
Skóli: Grundaskóli.
Bekkur: Var að klára 6. IHÓ.
Besti maturinn: Subway.
Besti drykkurinn: Blátt Powerade.
Besta lagið/tónlistin:
Í dag er uppáhaldslagið „Heimaey“ með Jóni Jónssyni og Frikka Dór, annars hlusta ég á allskonar tónlist.

Á hvað ertu að horfa þessa dagana? 
HM auðvitað 😉

Ættartréð:
„Pabbi minn heitir Unnar Örn Valgeirsson og mamma heitir Ragnheiður Magnúsdóttir. Á einn bróðir sem heitir Patrekur Orri og er 16 ára.“

 

 

Auglýsing