Bergdís Fanney hetja ÍA í 2-1 sigri gegn Haukum

Bergdís Fanney Einarsdóttir var aðalhlutverki í gærkvöld þegar ÍA blandaði sér í toppbaráttuna á ný í næst efstu deild kvenna í knattspyrnu.

Unglingalandsliðskonan skoraði bæði mörk ÍA í 2-1 sigri liðsins gegn Haukum í Inkasso-deildinni á Norðurálsvellinum.

Bergdís kom ÍA yfir á 38. mínútu en Berglind Baldursdóttir jafnaði tveimur mínútum síðar fyrir Hauka. Sigurmarkið skoraði Bergdís um miðjan síðari hálfleik.

Með sigrinum er ÍA komið í fjórða sæti deildarinnar með 19 stig en er aðeins tveimur stigum á eftir Fylki sem er í öðru sæti og sex stigum á eftir Keflavík sem er í efsta sæti deildarinnar.

Næsti leikur ÍA er gegn ÍR á útivelli miðvikudaginn 25. júlí.

Leikur ÍA og Hauka var sýndur beint á ÍA-TV og er hægt að horfa á leikinn hér fyrir neðan.