Hallbera vill upplifa drauminn – „Fyllum völlinn – gerum þetta saman“

„Það væri draumur að fylla völlinn. Gerum þetta saman!,“ segir Hallbera Guðný Gísladóttir leikmaður íslenska landsliðsins í knattspyrnu.

Hallbera Guðný er fædd á Akranesi og lék með yngri flokkum og mfl. ÍA. Hall­bera lék með ÍA til 2005, með Val 2006 til 2011 og var síðan í hálft þriðja ár er­lend­is með Piteå í Svíþjóð og Tor­res á Ítal­íu. Hún lék aft­ur með Val 2014 en síðan tvö tíma­bil með Breiðabliki áður en hún fór til Djurgår­d­en í Svíþjóð. Hallbera er leikmaður Vals í dag.

Framundan er einn stærsti leikur allra tíma hjá kvennalandsliðinu gegn Þjóðverjum. Leikurinn fer fram laugardaginn 1. september og með sigri gætu Hallbera og félagar hennar í landsliðinu stigið stórt skref í átt að lokakeppni HM.

Leikurinn er gríðarlega mikilvægur landsliðinu, en þegar tveir leikir eru eftir situr liðið á toppi riðilsins.

Í fyrsta sinn verður nú selt í númeruð sæti á leik kvennalandsliðsins á Laugardalsvelli, en töluverð eftirspurn er eftir miðum á leikinn og er búist við mikilli aðsókn. Miðaverð fyrir fullorðna verður 2.000 krónur og 500 krónur fyrir 16 ára og yngri, en börn þurfa númeruð sæti eins og aðrir. Þeir sem kaupa miða á leikinn fá einnig afsláttarkóða fyrir jafnmarga miða á 50% afslætti á leik Íslands og Tékklands sem fer fram þremur dögum síðar.

 

Auglýsing