Landssamtökin Þroskahjálp reka húsbyggingasjóð sem byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. Bæjarráð Akraness hefur samþykkt að fara í viðræður við samtökin um byggingu eða kaup á íbúðum á Akranesi fyrir fatlaða.
Fulltrúar samstarfsaðila hafa farið yfir lóðir í Skógarhverfi 2 sem koma til greina við byggingu á húsnæði. Þetta kemur fram í fundargerð Velferðar – og mannréttindaráðs.
Markmið sjóðsins er að greiða fyrir að sveitarfélög standi betur og fyrr við lagalegar skuldbindingar sínar um að sjá fötluðu fólki fyrir hentugu húsnæði fyrir leigugjald sem það geur ráðið við. Húsbyggingasjóður á nú og rekur 70-80 íbúðir á nokkrum stöðum á landinu sem leigðar eru fötluðu fólki samkvæmt ákvörðun viðkomandi sveitarfélaga.
Árni Múli Jónasson framkvæmdastjóri, Friðrik Sigurðsson verkefnastjóri og Símon Gísli Ólafsson, umsjónarmaður fasteigna frá Þroskahjálp funduðu með Velferðar – og mannréttindaráði Akraness í gær.
Auk þeirra mættu einnig frá skipulags- og umhverfisráði Ragnar B. Sæmundsson formaður og Ólafur Adolfsson aðalmaður, Sigurður Páll Harðarsson sviðsstjóri skipulags- og umhverfissviðs og Steinar Adolfsson sviðsstjóri stjórnsýslu- og fjármálasviðs.
Fulltrúar Þroskahjálpar kynntu stuttlega áherslur samtakanna og húsbyggingasjóðs Þroskahjálpar. Sjóðurinn byggir og kaupir íbúðir sem eru leigðar fötluðu fólki. En markmið sjóðsins er að greiða fyrir að sveitarfélög standi betur og fyrr við lagalegar skuldbindingar sínar um að sjá fötluðu fólki fyrir hentugu húsnæði. Fulltrúar Þroskahjálpar kynntu hvernig samstarfi við önnur sveitarfélög hefur verið háttað vegna bygginga eða kaupa á íbúðum á þeirra vegum.