Skilar salan á Arnóri 50 milljónum kr. til ÍA? Fer til CSKA fyrir metfé

Skagamaðurinn Arnór Sigurðsson mun leika með CSKA Moskvu í rússnesku úrvalsdeildinni. Hinn 19 ára gamli miðjumaður var keyptur fyrir metfé frá sænska liðinu Norrköping.

Samkvæmt frétt á visir.is er greint frá því að kaupverðið sé um 500 milljónir kr. og að ÍA fái um 10% af kaupverðinu. Heimildir Vísis eru þær að ÍA hafi samið um að fá 10% af sölu Arnórs þegar hann samdi við Norrköping í fyrra.

Arnór verður annar Íslendingurinn hjá CSKA Moskvu en Hörður Björgvin Magnússon gekk til liðs við félagið frá Bristol City í sumar fyrir um 320 milljónir kr.

Þess má geta að unnusta Harðar er frá Akranesi, Móeiður Lárusdóttir, en foreldrar hennar eru Lárus Vilhjálmsson og Móeiður Sigvaldadóttir.

Arnór er sjötti Íslendingurinn í rússnesku deildinni en Sverrir Ingi Ingason, Ragnar Sigurðsson og Skagamaðurinn Björn Bergmann Sigurðarson leika allir fyrir Rostov.

Þá leikur Jón Guðni Fjóluson með Krasnodar en hann kom einmitt frá Norrköping í sumar.

Auglýsing