Stefán varði bikarmeistaratitilinn og fer á HM í Suður-Kóreu

Skagmaðurinn Stefán Gísli Örlygsson er í hópi 100 efstu á heimslistanum í haglabyssuskotfimi. Um s.l. helgi varði Stefán Gísli bikarmeistaratitilinn á mótaröðinni hér á Íslandi.

Stefán fékk 58 stig af alls 60 mögulegum og er hann stigahæsti skotmaður landsins 2018. Árangurinn hjá Skagamanninum er frábær og er hann í dag á meðal 100 efstu á heimslistanum og í sæti nr. 91 á lista yfir bestu skyttur heiminum í þessari grein skotíþrótta.

Stefán Gísli Örlygsson. Mynd: Guðmundur Kr. Gíslason.

Dagana 13.-14. september mun Stefán Gísli keppa á heimsmeistaramótinu í leirdúfskotfimi sem fram fer í Suður-Kóreu. Verkefnið er afar spennandi og verða þrír keppendur frá Íslandi á HM sem keppa í skeet og fjórir í kúlugreinum.

„Þetta verður í annað sinn sem ég fer á HM. Það gekk alveg ágætlega í fyrra. Keppnisreynslan er alltaf að aukast. Ég tók þátt á tveimur heimsbikarmótum á þessu ári, á Möltu og í Tucson í Bandaríkjunum, auk þess á Evrópumeistaramótinu í Austurríki. HM í Suður-Kóreu verður stærsta mótið. Þar verður keppt í öllum greinum skotíþrótta og viðburðurinn verður því risastór. Það verða 113 keppendur sem keppa í skeet. Sex efstu komast í úrslit.

Stefán segir að aukið æfingamagn og frábær æfingaaðstaða á Akranesi hafi bætt árangur hans á undanförnum misserum.

„Við sem erum í landsliðshópum Íslands höfum æft meira en áður undir handleiðslu landsliðsþjálfarans sem er frá Grikklandi. Ég æfi mest á Akranesi. Aðstaðan sem er til staðar á skotæfingsvæðinu okkar er með því besta sem gerist.

Ég hef farið víða og skotvöllurinn okkar gefur þeim bestu ekkert eftir. Það er ekkert sem truflar mann á skotvellinum, leirdúfurnar sjást mjög vel á svæðinu, það er ekkert í bakgrunninum sem getur truflað. Vélarnar sem félagið á eru nýjar og eru af bestu gerð.

Stefán Gísli Örlygsson. Mynd/Guðmundur Kr. Gíslason.

Rúmlega 130 félagar eru í Skotfélagi Akraness og segir Stefán Gísli að áhuginn fari vaxandi með hverju árinu sem líður.

„Ég hef lengi haft áhuga á skotíþróttum. Ég byrjaði að æfa haglabyssuskotfimi fyrir tveimur áratugum, en með hléum.

Strax frá upphafi þá ákvað ég að reyna að gera mitt besta og ná árangri með því að æfa mikið. Það er nú allur leyndardómurinn,“ segir Stefán Gísli.

Stefán Gísli er 44 ára gamall og starfar sem verkefna og byggingarstjóri hjá Trésmiðjunni Akri. Stefán er byggingariðnfræðingur og húsasmíðameistari og stundar hann íþrótt sína samhliða vinnu.

Þess má geta að íþróttaárið hefur verið gott hjá þeim bræðrum Stefáni Gísla og Búa Örlygssonum, en Búi tryggði sér sigur í 1. flokki karla á Meistaramóti Golfklúbbsins Leynis 2018.

 

Ættartréð :
Foreldarar, Örlygur Stefánsson og Ásta Björg Gísadóttir.
Maki, Linda Dagmar Hallfreðsdóttir.
Börn , Gígja Kristný og Örlygur Hrafn.

Auglýsing