Skagamenn hafa fimm sinnum farið upp um deild á 50 árum

ÍA endurheimti sæti sitt í efstu deild karla í knattspyrnu í gær með 3-1 sigri gegn liði Selfoss á útivelli. Ein umferð er eftir í Inkassodeildinni en ljóst er að ÍA og HK leika í Pepsi-deild karla á næsta ári. ÍA leikur gegn Þrótti úr Reykjavík laugardaginn 22. september í lokaumferðinni. HK leikur gegn Haukum á útivelli en HK er með eitt stig í forskot á ÍA.

Þetta er í fimmta sinn sem ÍA fer upp í efstu deild eftir að hafa fallið úr efstu deild árið áður, 1968, 1991, 2011, 2014 og 2018.

Á þessu tímabili hefur ÍA leikið 21 leik í Inkasso-deildinni, unnið 14, gert 5 jafntefli og tapað 2 leikjum. Markatalan er 41-15.

Á fésbókarsíðunni Á Sigurslóð kemur fram árangur ÍA á þeim tímabilum þegar liðið vann sér sæti í efstu deild á ný. Árið 1968 lék liðið aðeins 6 leiki í næst efstu deild og sigraði með yfirburðum.

Árið 1991 var árangurinn mjög góður, 14 sigrar og 1 jafntefli og markatalan 55-12. Þetta var 18 leikja deild. Árið 2011 voru leikirnir orðnir 22 og þá var árangurinn líka mjög góður 16 sigrar og 3 jafntefli og markatalan 53-17.

Árið 2014 fór liðið nokkuð örugglega upp þó það hafi tapað 7 leikjum, unnið 14 leiki og gert eitt jafntefli.

Auglýsing