Þjónum kirkjunnar er margt til lista lagt!

Veðrið hefur leikið við Skagamenn undanfarnar vikur og september er í raun einn besti sumarmánuður þetta árið. „Vörusvikin“ í júlí verða seint gleymd hér á SV-horni landsins.

Góða veðrið hefur gert það að verkum að margir hafa dyttað að húseignum sínum víðsvegar um bæinn. Og hefur neðri-Skaginn verið áberandi í þessum efnum. Mörg hús á því svæði sem hafa fengið gott viðhald í sumar og miklar endurbætur átt sér stað á mörgum stöðum.

Þjónar kirkjunnar á Akranesi nýttu góða veðrið á dögunum til þess að mála grindverk við prestbústaðinn við Laugarbrautina.

Eins og sjá má á myndunum hér fyrir neðan þá leikur pensillinn í höndunum á organistanum Sveini Arnari Sæmundssyni og meðhjálparanum Helgu Sesselju Ásgeirsdóttur.

Ef vel er rýnt í myndirnar sem má glögglega sjá að Sveinn Arnar vandaði sig gríðarlega mikið – og beitti hann tungunni sem jafnvægistæki þegar hann renndi hvítu málningunni yfir grindverkið.

Fagmenn þarna á ferðinni – vel gert.

Auglýsing