Skagamennirnir Björn Lúðvíksson og Birkir Pétursson komu Hnísu til bjargar í Skarfavörinni á Akranesi í morgun.
Þýskur ferðamaður lét vita af dýrinu – sem komst ekkert áfram eins og sjá má á þessu myndbandi sem Björn deildi á fésbókinni í morgun.
„Já okkur tókst það eftir nokkrar tilraunir. Það kom þýskur ferðamaður til mín þar sem ég var hjá Vitanum og sagði að það væri hvalur strandaður. Við vorum tveir sem vorum að vaða og koma honum út en hann sneri alltaf við en að lokum tókst það,“ segir Björn í færslu á fésbókinni.
Björn bætir því við að hann telji að um Hnísu sé að ræða, ungt dýr, því hún var ekki stór.
Hnísan er minnsti tannhvalurinn við Ísland. Fullvaxin karldýr eru tæpir tveir metrar á lengd og vega u.þ.b. 70 kg. Kvendýrin eru 1,4-1,9 m löng og vega 55-70 kg. Hnísan er dökkgrá að ofan, ljósari á síðum og hvít á kviði. Dökkar rákir eru milli bægsla og munnvika. Bakugginn er lágur, ávalur og afturhallandi. Tennurnar eru 40-60 í hvorum skolti. Hnísurnar geta orðið um 30 ára gamlar.