Á fundi bæjarráðs Akraness í lok júní s.l. fór fram kynning á verkefni sem tengist uppbyggingu á aðstöðu Keilufélags Akraness.
Á fundinum var rædd tillaga þess efnis að Keiluhöll verði sett upp í húsnæði við Kalmansvelli. Í því húsnæði hefur m.a. verið ýmiskonar verslunarrekstur en upphaflega var húsið byggt undir saumastofu á vegum Henson.
Guðmundur Sigurðsson formaður Keilufélags Akraness segir í samtali við skagafrettir.is að málið sé á algjöru frumstigi.
„Við finnum fyrir miklum velvilja og skilning hjá Akraneskaupstað. Grunnhugmyndin er að útbúa keilusal með 6-8 brautum og ýmiskonar afþreyingu. Það vantar slíkan stað hér á Akranesi og þar til viðbótar er æfingaaðstaða Keilufélagsins í íþróttahúsinu við Vesturgötu er löngu sprunginn. Við vitum ekki hvernig þessi hugmynd mun þróast en þetta er í ferli hjá Akraneskaupstað og við vonum það besta,“ sagði Guðmundur.