Brekkubæjarskóli fékk styrk fyrir spennandi alþjóðlegt verkefni

„Verkefnið felur í sér að kynnast nemendum í skólum í fjórum mismunandi löndum með samskiptum þar sem við notum myndbönd til að kynna okkur og nærumhverfið okkar,“ segja Bryndís Böðvarsdóttir og Heiðrún Hámundardóttir kennarar við Brekkubæjarskóla við skagafrettir.is.

Nýverið fékk verkefnið …and Action styrk úr alþjóðlega sjóðnum Erasmus+ ásamt skólum frá Norður-Írlandi, Portúgal, Krít og Þýskalandi – sem eru hluti af þessu verkefni.

Upphæðin er um 4,7 milljónir kr. eða 35.000 Evrur. „Verkefnið felur í sér að nemendur búa til myndbönd með t.d. fréttum úr heimabyggð, kynningu á landi og þjóð – og ýmsu öðru sem þessu tengist,“ segja kennarnir.

Með Erasmus+ gefst menntastofnunum og aðilum sem sinna menntun á öllum skólastigum tækifæri til að auka alþjóðavæðingu í skólastarfi, miðla eigin reynslu og sækja þekkingu til annarra Evrópulanda.

Markmið áætlunarinnar eru meðal annars að styðja verkefni sem miða að því að efla grunnfærni einstaklinga, s.s. læsi og stærðfræði, ýta undir sköpunargáfu og frumkvöðlakennslu, vinna gegn brotthvarfi, styðja við aðlögun innflytjenda, innleiða upplýsingatækni í menntun, efla starfsmenntun, þróa nýjar námsleiðir og kennsluaðferðir og almennt að auka gæði í menntun á öllum skólastigum og í atvinnulífi.

Auglýsing