„Metnaðurinn er til staðar hjá Akraborg og það kveikti neistann. Stjórnendur Akraborgar vilja huga að betri heilsu starfsmannanna enda græða allir á því þegar til lengri tíma er litið,“ segir Anna Sólveig Smáradóttir sjúkraþjálfari sem nýverið gerði samning við fyrirtækið Akraborg á Akranesi. Samningurinn er tímamótasamningur á þessu sviði.
„Einar Víglundsson hjá Akraborg hafði samband við mig s.l. Vor. Í því samtali kom fram einlægur vilji þeirra sem þar stjórna að reyna að með markvissum hætti að minnka álagseinkenni og fjarvistir frá vinnu hjá tæplega 40 starfsmönnum,“ segir Anna en hún er í samvinnu með þetta verkefni með Fysio flow.
„Þetta er danskt æfingakerfi, hannað af Pernille Thomsen sjúkraþjálfara, sem hefur verið hérna á Íslandi að kenna íslenskum sjúkraþjálfurum Fysio Flow. Mér fannst þetta vera kjörinn vettvangur til að fara inn á vinnustaðinn með fræðslu um verki, streitutengd einkenni, forvarnir og úrræði.
Að mínu mati smellpassar Fysio Flow sem virkt úrræði og heilsuefling. Starfsfólkið fær því skipulagða hreyfingu inn á vinnustaðinn á vinnutíma, en auk þess veitir fyrirtækið styrki til hreyfingar utan vinnutíma. Við ákváðum að fara svona af stað inn í 12 vikna tiltraunatímabil.“
Hugmyndafræði FF byggist á rannsóknum á sviði taugalífeðlisfræði, sálfræði, verkjafræði og stoðkerfisfræði. Meginmarkmið er að auka hreyfanleika og draga úr áhrifum streitu með því að hafa róandi áhrif á taugakerfið.
„Rannsóknir hafa sýnt að ónæg hreyfing, einhæfar hreyfingar eða mikil kyrrseta og streita hafa áhrif á bandvefinn þannig að hann verður þurr og stífur og vefurinn hreyfist/rennur illa gagnvart aðliggjaandi vef sem gerir það að verkum að mótstaða hreyfinga eykst. Mjúkar hreyfingar sem ná yfir marga liði í senn hafa þau áhrif að vökvaflæði í bandvefnum eykst og þar með hreyfingar bandvefsins á nærliggjandi vefum s.s. vöðva og taugavef.
Fyrir utan þetta er svo það augljósa sem þetta gerir fyrir starfsfólkið s.s. að efla liðsheildina og starfsanda þegar starfsfólkið gerir þetta svona saman. Það sem við erum að vinna með hefur reynst vel fyrir fólk með streitutengd einkenni, langvinna bakverki og aðra verki jafnt og íþróttafólk í endurhæfingu.
Að sama skapi nýtist Fysio Flow sem fyrirbyggjandi aðgerðir.
Fysio Flow er kennt á nokkrum stöðum á Íslandi og sjálf kenni ég það fyrir almenning í Hreyfistjórn á Akranesi og einnig hjá Hæfi sem er ný endurhæfingarstöð í Egilshöll.
Þetta er spennandi samtarf og liklega nýjung á Akranesi að fyrirtæki bjóði upp á skipulagða hreyfingu fyrir starfsfólk sitt á vinnutíma og inn á vinnustaðnum,“ segir Anna Sólveig í samtali við skagafrettir.is
Auglýsing