HVE tekur þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma

Heilbrigðisstofnun Vesturlands mun taka þátt í tilraunaverkefni um styttingu vinnutíma. Samkomulag þess efnis var undirritað í gær. HVE lyflækningardeild var valið úr hópi umsækjenda um þátttökuverkefni ríkisins og BSRB.

Markmiðið hjá HVE verður að stytta vinnutíma allra starfsmanna á lyflækningadeild á Akranesi um 10% – en verkefnið hófst 1. september s.l.  og stendur fram til 31. maí 2019.

Verkefnið er unnið í kjölfar viljayfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 28. október 2015 í tengslum við kjarasamninga ríkisins við aðildarfélög BSRB.

Félags- og jafnréttismálaráðherra skipaði starfshóp um styttingu vinnutíma til að annast framkvæmd verkefnisins en í honum sitja fulltrúar fjármála- og efnahagsráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og BSRB. Elsa Lára Arnardóttir er formaður starfshópsins.

Markmiðið er að stytting vinnutímans bitni ekki á gæðum þjónustustigs og verður fylgst grannt með framgangi og árangri verkefnisins. Starfsmenn HVE sem taka þátt í þessu verkefni munu svara rafrænum könnunum á tímabilinu. Stefnt er að því að mæla stöðuna a.m.k. áður en verkefnið hefst, um miðbik þess og í lokin.

 

 

Auglýsing