Starfsfólk Spalar og forsvarsmenn félagsins fá góðar kveðjur frá Akraneskaupstað

Bæjarstjórn Akraness fjallaði á fundi sínum í gær um þann merkisáfanga sem verður í lok september 2018 – þegar Spölur skilar Hvalfjarðargöngum til ríkisins tveimur áratugum eftir að þau voru opnuð. Bæjarstjórnin sendi eftirfarandi ályktun frá sér í gær.

Bæjarstjórn Akraness fagnar þeim merkisáfanga sem verður í lok þessa mánaðar, þegar Spölur skilar Hvalfjarðargöngum fullfjármögnuðum til ríkisins tuttugu árum eftir að göngin voru opnuð til umferðar þann 11. júlí 1998.

 

Hvalfjarðargöng eru einstök framkvæmd á íslenskan mælikvarða og í raun er saga Hvalfjarðarganganna merkisatburður í samgöngusögu íslensku þjóðarinnar og nefna má örfá atriði í því sambandi:

  • Fyrsta og eina fjárfesting Íslendinga í samgöngumannvirki undir hafsbotninum við landið.
  • Fyrstu neðansjávargöng veraldar í ungu gosbergi.
  • Fyrstu neðansjávargöngin á Íslandi.
  • Fyrsta framkvæmdin á Íslandi sem samið var um á grundvelli alútboðs og verktakinn bar alla ábyrgð á fjármögnun verksins á framkvæmdatíma og tæknilega ábyrgð á framkvæmd verksins.
  • Fyrsta einkaframkvæmd í íslensku vegakerfi.
  • Fyrsta fjárfesting íslenskra lífeyrissjóða í einkaframkvæmd.
  • Fyrsta alþjóðlega fjárfesting sinnar tegundar í samgöngumálum á Norðurlöndum.
  • Mannvirkið hefur verið gríðarleg samgöngubót fyrir alla landsmenn en fyrir Skagamenn hefur tilkoma þeirra gjörbreytt forsendum fyrir þróun búsetu á Akranesi.

Öryggi vegfarenda í Hvalfjarðargöngum hefur frá fyrsta degi verið haft í forgrunni í rekstri Spalar til heilla fyrir vegfarendur og vill bæjarstjórn Akraness skora á ríkið að hvika hvergi í öryggismálum við yfirtöku ganganna.

Bæjarstjórn færir forsvarsmönnum Spalar bestu þakkir fyrir ómetanlegt framlag þeirra til samgöngusögu þjóðarinnar sem og þakkir til allra þeirra stórhuga sem komu að undirbúningi og framkvæmd verkefnisins og hafa staðið með því í gegnum þykkt og þunnt.

Jafnframt færir bæjarstjórn Akraness starfsfólki Spalar bestu þakkir fyrir þeirra framlag og óskar þeim velfarnaðar í nýjum verkefnum.

Bæjarstjórn Akraness brýnir ríkið til að huga að því að með sömu þróun umferðar verða Hvalfjarðargöng komin að mörkum leyfilegs umferðarmagns innan fárra missera og því þarf að huga að undirbúningi nýrra Hvalfjarðarganga án tafar.

Auglýsing