ÍA fær styrk til að hvetja börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttastarfi

Íþróttabandalag Akraness er eitt af fimm íþróttafélögum landsins sem fékk styrk til að standa fyrir verkefnum sem hvetja börn af erlendum uppruna til þátttöku í íþróttastarfi.  Verkefnið er samstarfsverkefni ÍSÍ og UMFÍ.

Félögin sem hljóta styrki eru ÍBV, Héraðssamband Snæfells- og Hnappadalssýslu, Íþróttabandalag Akraness, Valur og Taekwondodeild Keflavíkur. Hildur Karen Aðalsteinsdóttir, framkvæmdastjóri ÍA, tók við styrknum fyrir hönd félagsins.

Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, var viðstödd þegar verkefnið var kynnt á blaðamannafundi hjá ÍSÍ og UMFÍ.

Lilja sagðist vera virkilega ánægð með framtakið og sagði frábært að gera íþróttir aðgengilegar öllum enda sé það vettvangur fyrir alla til að njóta sín. Málið sé brýnt.

Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu, flutti erindi um hlutfall barna af erlendu bergi brotnu í íþróttum. Margrét sagði forvarnargildi íþrótta óumdeilanlegt og sé það til fyrirmyndar í öðrum löndum. Hingað komi fjöldi fólks, bæði frá erlendum stjórnvöldum og blaðamenn, til að fræðast um árangur Íslendinga í forvarnarmálum. Talið er að um 10% íbúa á Íslandi séu innflytjendur en samanlagt er fyrsta og önnur kynslóð innflytjenda 12% allra þeirra sem búa á Íslandi. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar sem Rannsókn og greining lagði fyrir alla nemendur í 8. – 10. bekk á Íslandi 2016 stunda 56% barna og ungmenna nær aldrei íþróttir þar sem engin íslenska er töluð á heimilinu og 46% barna og ungmenna stunda nær aldrei íþróttir þar sem íslenska er töluð ásamt öðru tungumáli. Margrét sagði sláandi hversu stórt hlutfall ungmenna af erlendum uppruna virðist ekki stunda íþróttir. Í næstu könnun verði spurt um fæðingarland viðkomandi.

Auk þess héldu erindi þau Maciej Baginski, körfuboltamaður frá Njarðvík, og Samar E. Zahilda, taekwondokona úr Ármanni. Maciej er frá Póllandi en foreldrar Samar frá Pakistan. Í erindum sínum lýstu þau bæði því hvað íþróttaþátttaka hefur gert fyrir þau.

Í tengslum við verkefnið hafa verið gefnið út bæklingar á fimm tungumálum, auk íslensku, þar sem finna má hagnýtar upplýsingar um starfsemi íþrótta- og ungmennafélaga landsins, upplýsingar um æfingagjöld íþróttafélaga, frístundastyrki, mikilvægi þátttöku foreldra í íþróttum barna og kosti þess að hreyfa sig í skipulögðu starfi. Markhópurinn eru foreldrar barna og ungmenna af erlendum uppruna. Bæklingurinn er gefinn út á sex tungumálum, þ.e. á íslensku, ensku, pólsku, tælensku, litháísku og filippseysku og má finna hér á vefsíðu ÍSÍ:

Auglýsing