Þaulreynt lið Skagamanna mætir til leiks í Útsvari

Skagamenn hafa á undanförnum misserum náð fínum árangri í spurningakeppni á mill sveitarfélaga í sjónvarpsþættinum Útsvari. Akranes verður með lið að þessu sinni og verður fyrsta keppnin föstudaginn 5. október.

Akranes mætir liði Fjarðabyggðar. Þetta er tólfta árið í röð þar sem þessi spurningakeppni fer fram. Í ár er gerð sú breyting að aðeins þau lið sem hafa komist í úrslit eða verið nálægt því fá að taka þátt. Keppnistímabilið verður því snarpara og tekur styttri tíma en áður.

Þaulreyndir keppendur er í liði Skagamanna í ár, og þar fara Vilborg Þórunn Guðbjartsdóttir kennari í Brekkubæjarskóla og Gerður Jóhanna Jóhannsdóttir héraðsskjalavörður og bæjarfulltrúi fremstar í flokki. Þær Vilborg og Gerður hafa keppt fyrir Akranes í þessari keppni undanfarin ár. Þeim við hlið verður nýliðinn Hjalti Brynjar Árnason lögmaður sem kemur nýr í liðið.

Skagamenn, sem hafa áhuga á að vera í sjónvarpssal á meðan keppnin stendur yfir, eru velkomnir. Mæting er hálftíma áður en keppnin hefst í Efstaleiti 1.

 

Auglýsing