Verður Jón Þór fjórði Skagamaðurinn til að stýra A-landsliði hjá KSÍ?

Allt bendir til þess að Skagamaðurinn Jón Þór Hauksson verði næsti þjálfari kvennalandsliðs Íslands í knattspyrnu.

Jón Þór hefur samkvæmt heimildum fotbolti.net sagt upp störfum sem aðstoðarþjálfari meistaraflokks karla hjá Stjörnunni í Garðabæ. Jón Þór hefur verið í því starfi frá s.l. hausti og gerði hann Stjörnuna m.a. að bikarmeisturum.

Ásthildur Helgadóttir, ein leikreyndasti leikmaður kvennalandsliðsins frá upphafi, mun vera í þjálfarateyminu með Jóni Þóri samkvæmt frétt fotbolti.net.

Ef Jón Þór verður ráðinn verður hann fjórði Skagamaðurinn sem stýrir A-landsliði hjá KSÍ frá upphafi.

Ríkharður Jónsson var fyrsti Skagamaðurinn til að taka að sér þjálfun A-landsliðs hjá KSÍ. Ríkharður var landsliðsþjálfari karlalandsliðsins fyrst árið 1961 og á ný á tímabilinu 1969-1971. Þess má geta að Ríkharður var stjúpafi Jóns Þórs til margra ára og lærði Jón Þór m.a. málaraiðn hjá Ríkharði.

Steinn Helgason var fyrsti Skagamaðurinn sem þjálfaði A-landslið kvenna í knattspyrnu. Hann var þjálfari árið 1992 ásamt Sigurði Hannessyni.

Guðjón Þórðarson var þriðji í röðinni en hann þjálfaði A-landslið Íslands á árunum 1997-1999. Jón Þór var aðstoðarþjálfari hjá Guðjóni þegar hann stýrði ÍA á árunum 2006-2007.

Skagatengingin er við marga af þjálfurum kvennalandsliðsins í gegnum tíðina. Vanda Sigurgeirsdóttir var leikmaður ÍA á sínum tíma, líkt og Helena Ólafsdóttir – sem er núverandi þjálfari mfl. kvenna hjá ÍA. Logi Ólafsson þjálfaði m.a. karlalið ÍA á sínum tíma og Sigurður Ragnar Eyjólfsson lék með liði ÍA á árum áður.

Þjálfarar kvennalandsliðsins frá upphafi.

Sigurður Hannesson 1981-1984
Sigurbergur Sigsteinsson 1985-1986
Aðalsteinn Örnólfsson 1987
Sigurður Hannesson og Steinn Mar Helgason 1992
Logi Ólafsson 1993-1994
Kristinn Björnsson 1995-1996
Vanda Sigurgeirsdóttir 1997-1999
Þórður Georg Lárusson 1999-2000
Logi Ólafsson 2000
Jörundur Áki Sveinsson 2000-2003
Helena Ólafsdóttir 2003-2004
Jörundur Áki Sveinsson 2004-2006
Sigurður Ragnar Eyjólfsson 2007-2013
Freyr Alexandersson 2013-2018

Auglýsing