„Heimavistin er góð viðbót í okkar gistirekstur“

„Heimavistin er góð viðbót í okkar gistirekstur. Það skiptir miklu máli að geta aukið framboðið yfir sumartímann á Akranesi,“ segir Eggert Hjelm Herbertsson við skagafrettir.is.

Nýverið gekk fyrirtækið Stay West, sem er í eigu hjónanna Eggerts og Ingibjargar Valdimarsdóttur, frá samningu um leigu á húsnæði heimavistar Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Ágústa Elín Ingþórsdóttir skólameistari FVA skrifaði undir samnninginn fyrir hönd FVA.

Stay West hefur á undanförnum tveimur árum nýtt heimavistina undir gistiþjónustu yfir sumartímann. Samningur þess efnis fyrir árið 2019 var undirritaður í síðustu viku.

Eggert segir að nýtingin á gistingunni á heimavist FVA hafi aukist jafnt og þétt.

Á meðan það er ekki hótel í svona stóru bæjarfélagi þá þurfum við að nýta alla möguleika til gistingar

„Sérstaklega á viðburðum eins og Norðurálsmótinu, Írskum dögum og einnig hafa margir hópar nýtt sér þessa þjónustu. Þar má nefna úrvalshópa á vegum KSÍ. Á meðan það er ekki hótel í svona stóru bæjarfélagi þá þurfum við að nýta alla möguleika til gistingar – sem er oft forsenda fyrir ýmsu öðru,“ sagði Eggert Hjelm í samtali við skagafrettir.is í dag.

Stay West er með gistiheimili á þremur stöðum á Akranesi, eitt í gamla Apótekinu við Suðurgötu, annað í Kirkjuhvoli og á sumrin í heimavist FVA. Einnig er Stay West með gistiheimili í Borgarnesi.

 

Auglýsing