Ásmundur fékk Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2018

Ásmundur Ólafsson fékk í gær afhent Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar 2018. Verðlaunin eru veitt í tengslum við upphaf Vökudaga. Þetta er í tólfta sinn sem þessi verðlaun eru afhent.

Menningarverðlaun Akraness eru almennt veitt þeim sem hefur skarað fram úr á einhverju sviði menningar í bæjarfélaginu. Þau eru m.a. veitt þeim er staðið hafa vörð um menningararfleifð Akraness og haldið sögu bæjarins á lofti.

Ásmundur hefur um langt skeið lagt stund á greinaskrif um merka atburði og framfaramál í sögu Akraness og birt m.a. í útvarpi, tímaritum og blöðum.

Árið 2016 var gefin út bókin Á Akranesi: Þættir um sögu og mannlíf með úrvali úr greinarsafni hans um þar sem í forgrunni er atvinnusaga og mannlíf á Akranesi á tuttugustu öld. Þá hefur hann einnig grúskað í ættfræði og samið niðjatöl.

Viðfangsefnin í greinaskrifum Ásmundar eru einstaklega fjölbreytt en hann hefur þó kannski fyrst og fremst fengist við að lýsa þróun samfélags á Akranesi þegar nútíminn hélt innreið sína með umbyltingu atvinnuhátta. Umfjöllun hans um áfanga í tæknivæðingu landbúnaðar og útgerðar er ómetanlegt framlag í skráningu á sögu Akraness og þar ber sérstaklega að geta samantekt hans um frumkvöðla og annað drífandi fólk af öllum stigum sem sett hefur mark sitt á bæinn.

Sævar Freyr Þráinsson bæjarstjóri afhendi Ásmundi Ólafssyni viðurkenningu þessu til staðfestingar ásamt verðlaunagrip eftir listakonuna Kolbrúnu Kjarval.