Bragi Þórðarson heiðursborgari Akraness

Bragi Þórðarson fékk í gærkvöld nafnbótina heiðursborgari Akraness. Um 150 manns voru viðstaddir hátíðlega atfhöfn sem fram fór á Bókasafni Akraness.

Bragi er áttundi einstaklingurinn sem gerður er að heiðursborgara Akraness. Í tilkynningu frá Akraneskaupstað segir að allir þessi einstaklingar hafi stuðlað að því hver með sínum hætti að skapa bæjarfélaginu Akraness sérstöðu meðal annarra sveitarfélaga og eflt með íbúunum stolt, sem ekki verður metið til fjár.

Þeir sem hafa fengið heiðursnafnbótina heiðursborgari Akraness eru:

Einar Ingjaldsson.
Sr. Friðrik Friðriksson.
Ólafur Finsen, læknir.
Guðrún Gísladóttir, ljósmóðir.
Sr. Jón M. Guðjónsson.
Þorgeir Jósefsson.
Ríkharður Jónsson.

Ítarlega er greint frá athöfninni á vef Akraneskaupstaðar og má lesa það hér fyrir neðan.

Sævar Freyr Þráinsson, bæjarstjóri Akraness, tók fyrstu til máls og fór yfir starfsferil Braga og fyrstu kynni þeirra Braga árið 1985 þegar hann fór nýfermdur til hans í Bókaskemmuna og ráðstafaði drjúgum hluta fermingarpeninga sinna til kaupa á hljómflutningstækjum, mætti hann þar einstakri hlýju og góðri nærveru Braga.

Að lokinni ræðu var Braga færður blómvöndur og skjal þessu til staðfestingar ásamt fallegum grip til minningar sem Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður og skartgripahönnuður gerði af þessu tilefni. Gripurinn er táknrænn um samheldni þeirra hjóna á lífstíðinni og áhrif þeirra á samfélagið á Akranesi og víða. Bragi tók þar næstur til máls og var hann fullur þakklætis í garð bæjarstjórnar og Skagamanna allra. Bragi var afar einlægur í ræðu sinni, fór yfir atvinnusögu sína og líf þeirra hjóna á Akranesi. Halldóra Jónsdóttir bókasafnsvörður á Bókasafni Akraness tók næst til máls og færði Braga hamingjuóskir með nafnbótina en Halldóra og Bragi eiga góðan vinskap í gegnum bókmenntir og má nánast fullyrða að Bókasafn Akraness er annað lögheimili Braga. Óskar Þór Þráinsson upplýsingafræðingur og útgefandi hjá emma.is flutti næst erindi sem fjallaði um nútíma prenttækni og síðastur á mælendaskrá var Jakob Þór Einarsson leikari sem las úr safni Braga við vægast sagt góðar undirtektir. Það má með sönnu segja að kvöldið var einstaklega vel heppnað í alla staði. Yngri hópur þjóðlagasveitarinnar flutti tónverk undir leiðsögn Hrefnu Berg og var í lokin boðið uppá dýrindis veitingar að hætti Þórðar hjá Sansa.

Elín Þorvaldsdóttir og Bragi Þórðarson. Mynd/Akranes.is

Að lokinni ræðu var Braga færður blómvöndur og skjal þessu til staðfestingar ásamt fallegum grip til minningar sem Dýrfinna Torfadóttir gullsmiður og skartgripahönnuður gerði af þessu tilefni. Gripurinn er táknrænn um samheldni þeirra hjóna á lífstíðinni og áhrif þeirra á samfélagið á Akranesi og víða. Eiginkona Braga er Elín Þorvaldsdóttir en þau hafa verið gift frá árinu 1956.

Bragi tók þar næstur til máls og var hann fullur þakklætis í garð bæjarstjórnar og Skagamanna allra. Bragi var afar einlægur í ræðu sinni, fór yfir atvinnusögu sína og líf þeirra hjóna á Akranesi.

Halldóra Jónsdóttir bókasafnsvörður á Bókasafni Akraness tók næst til máls og færði Braga hamingjuóskir með nafnbótina en Halldóra og Bragi eiga góðan vinskap í gegnum bókmenntir og má nánast fullyrða að Bókasafn Akraness er annað lögheimili Braga.

Óskar Þór Þráinsson upplýsingafræðingur og útgefandi hjá emma.is flutti næst erindi sem fjallaði um nútíma prenttækni og síðastur á mælendaskrá var Jakob Þór Einarsson leikari sem las úr safni Braga við vægast sagt góðar undirtektir. Það má með sönnu segja að kvöldið var einstaklega vel heppnað í alla staði. Yngri hópur þjóðlagasveitarinnar flutti tónverk undir leiðsögn Hrefnu Berg og var í lokin boðið uppá dýrindis veitingar að hætti Þórðar hjá Sansa.

Sé litið yfir ævi Bragi þá fæddist hann á Akranesi 24. júní 1933. Hann gekk í Barnaskóla Akraness og lauk prófi frá Gagnfræðaskólanum á Akranesi árið 1950. Bragi stundaði nám í Iðnskólanum á Akranesi og lauk sveinsprófi í prentiðn eða setningu eins og það kallast árið 1954. Hann öðlaðist meistarabréf árið 1957. Bragi starfaði í tæpa þrjá áratugi í Prentverki Akraness, fyrst við setningu en síðan sem prentsmiðjustjóri og einn af eigendum fyrirtækisins allt til ársins 1982. Bragi giftist Elínu Þorvaldsdóttur árið 1956. Gáfu þau út fjórar bækur árið 1958 undir merkjum Akrafjallsútgáfunnar og stofnaði ásamt henni Hörpuútgáfuna árið 1960. Þau eiga soninn Þorvald og dótturina Bryndísi og eru barnabörnin orðin fjögur. Árið 1982 seldi Bragi sinn hlut í Prentverki Akraness og sneri sér alfarið að útgáfustarfsemi og ritstörfum. Sama ár stofnuðu hann og Elín Bókaskemmuna, bóka- og tölvuverslun á Akranesi, sem þau ráku til ársins 1992. Hörpuútgáfuna rak Bragi ásamt Elínu til ársins 2007.

Bragi hefur setið í ritstjórn nokkurra bóka og rita, skrifað greinar í blöð og tímarit og unnið þætti fyrir Ríkisútvarpið. Það er líklega einstakt hvernig einn og sami maðurinn hefur unnið bækur á öllum stigum og komið þeim út á ólíku formi. Upphaflega fór hann að skrifa frásöguþætti fyrir útvarp sem hann flutti í Ríkisútvarpinu, eins og áður sagði. Þættirnir urðu síðan efni í bækur sem hann setti eins og þá tíðkaðist á setjaravél í prentsmiðju. Á þeim tíma voru línurnar steyptar í blý og síðar raðað saman í bók til prentunar. Auk þess að koma þáttunum út í prentuðum bókum, var efni þeirra oft gefið út síðar í formi hljóðbóka þar sem hann var sjálfur lesari. Fyrst var útgáfan á kassettum, síðar á geisladiskum og seinni árin í rafbókaformi.

Bragi sat í stjórn Félags íslenska prentiðnaðarins, í stjórn Félags íslenskra bókaútgefenda, í stjórn Sögufélags Borgarfjarðar og í stjórn Bæjar- og héraðsbókasafns Akraness á árunum 1966-1996, þar af stjórnarformaður í 10 ár. Bragi starfaði einnig í Góðtemplarareglunni og Leikfélagi Akraness ásamt því að syngja í Karlakórnum Svönum. Hann er skáti og hefur verið virkur í skátastarfinu á Akranesi síðan árið 1943 þar af félagsforingi Skátafélags Akraness um árabil. Bragi var fyrsti formaður Æskulýðsráðs Akraness og vann mikið starf við stefnumótun þess. Hann hefur starfað í Oddfellowreglunni frá árinu 1960 og gegnt þar fjölmörgum trúnaðarstörfum.

Bragi hefur margoft verið verðlaunaður fyrir verk sín gegnum árin. Árið 2004 hlaut hann Borgfirsku menningarverðlaunin og Menningarverðlaun Akraneskaupstaðar. Hann var gerður að heiðursfélaga í Félagi íslenskra bókaútgefenda árið 2004 og Skátafélags Akraness árið 2006. Bragi hlaut heiðursmerki Oddfellowreglunnar 2006 og var sæmdur Riddarakrossi hinnar íslensku fálkaorðu árið 2007. Um áratuga skeið hefur Bragi safnað og gefið út sögur af fólki og annan fróðleik um Akranes, alls 22 bækur.

Í verkum Braga liggja ómetanleg verðmæti sem hann hefur bjargað frá því að falla í gleymsku og þannig lagt sinn skerf til samfélagsins á Akranesi, langt umfram hans skylduverk. Bragi hefur ætíð haft hagsmuni samfélagsins að leiðarljósi með velvilja og jákvæðni. Það er ekki hægt annað en að minnast einnig á þátt Elínar eiginkonu Braga þegar farið er yfir þennan lífsferil Braga, hún hefur ávallt verið virkur þátttakandi í mörgum verkefnum Braga og stóran skerf í þessum heiðri sem Braga er nú sýndur.

Akraneskaupstaður sendir Braga, Elínu og hans fjölskyldu þakkir fyrir þeirra framlag til samfélagsins á Akranesi og hamingjuóskir með daginn.

Auglýsing