Spölur hefur endurgreitt 120 milljónir kr. – átt þú eftir að skila veglykli eða afsláttarmiðum?

Starfsmenn Spalar hafa nú greitt viðskiptavinum félagsins liðlega helming þeirra fjármuna sem þeir áttu á áskriftarreikningum sínum (andvirði ónotaðra ferða á veglykli) þegar ríkið tók við rekstri Hvalfjarðarganga 1. október sl. eða um 120 milljónir króna af alls 231 milljón króna, sem var staðan í lok september.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Speli.

Afsláttarmiðar hafa skilað sér hlutfallslega verr en veglyklar, eins og við var búist. Alls voru 111.000 ónotaðir miðar útistandandi í lok september, þegar Spölur hætti innheimtu veggjalda, að verðmæti um 71 milljón króna. Nú hefur Spölur greitt á átjándu milljón króna fyrir liðlega 27.000 miða.

Skýrt skal tekið fram að þessar tölur eiga einungis við um frágengin uppgjörsmál en mun fleiri veglyklar og afsláttarmiðar eru komnir í hús og bíða úrvinnslu. Nokkurn tíma tekur að vinna úr því sem safnast hefur fyrir á skrifstofu Spalar og við bætist svo allt það sem á eftir að skila sér til mánaðarmóta.

Viðskiptavinir Spalar eru hvattir til að skila veglyklum og afsláttarmiðum fyrir lok nóvember og þessa dagana er umtalsverð ös á afgreiðslustöðum.

Í desember er stefnt að því að ljúka uppgjöri við alla þá sem skiluðu lyklum og miðum fyrir lok nóvember. Jafnframt því mun starfsfólk Spalar leggja sig fram um að reyna að ná sambandi við þá sem ekki létu í sér heyra fyrir 1. desember en eiga inni á áskriftarreikningum hjá félaginu.

Spölur á veglyklana og endurgreiðir viðskiptavinum sínum fyrir hvern lykil sem skilað er og innistæður á áskriftarreikningum að auki. Þeir sem af einhverjum ástæðum skila ekki veglyklum fá engu að síður innistæður sínar greiddar (ef einhverjar innistæður eru á annað borð á reikningum þeirra) en ekki skilagjald.

Unnið verður að lokauppgjöri Spalar og frágangi að ýmsu tagi fram á árið 2019. Félaginu verður síðan slitið.

Í afhendingarsamningi ríkisins og Spalar er kveðið á um að ef einhverjir fjármunir verði eftir í fórum Spalar, þegar allur kostnaður hefur verið greiddur og hlutafé sömuleiðis, skuli þeir renna til „sérstakra verkefna í tengslum við rekstur Hvalfjarðarganga“.

Auglýsing



Auglýsing