Bergdís Fanney: „Verð ævinlega þakklát fyrir tímann hjá ÍA“

„Þetta var erfið ákvörðun og erfitt að fara frá uppeldisfélaginu. En eftir að hafa skoðað möguleikana fram og til baka var niðurstaðan að fara í Val,“ segir Bergdís Fanney Einarsdóttir við skagafrettir.is.

Landsliðskonan efnilega skrifaði á dögunum undir samning við Val í Reykjavík og segir Bergdís að hún hafi þurft á nýrri áskorun að halda.

„Valur hafði samband við mig í gegnum forsvarsmenn ÍA. Ég ákvað á skoða hvað félagið hafði upp á að bjóða. Eftir þá heimsókn þá leist mér mjög vel á allt. Umgjörðin er frábær, það er metnaður hjá liðinu og þetta höfðaði til mín. Ég var einnig persónulega á þeim stað á ferlinum að ég þurfti að taka skref upp á við. Verða betri leikmaður og að mínu mati þá er Valur rétta félagið til að uppfylla það sem mig vantaði á þessum tímapunkti.“

Bergdís Fanney segir að hún eigi eftir að sakna liðsfélaga sinn á Akranesi og einnig þeirra sem hafa þjálfað hana á undanförnum árum,

„Ég verð ævinlega þakklát fyrir það sem ég hef fengið hjá ÍA. Ég hef lært mikið, fengið góða reynslu og margir hafa komið að því að þjálfa mig og hjálpa mér að verða betri leikmaður. Ég á eftir að sakna liðsfélaga minna og starfsmanna félagsins í gegnum tíðina.  Góða stemningin í aðstöðu ÍA er einnig eitthvað sem ég á eflaust eftir að sakna.


Bergdís Fanney er að ljúka námi við Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi og verður hún búsett á Skaganum áfram þrátt fyrir að vera í félagsliði í Reykjavík.

Bergdís hefur leikið 11 landsleiki með U-19 ára liði Íslands og 14 leiki með U-17 ára landsliði Íslands. Hún skoraði alls 15 mörk í 18 leikjum  með ÍA í Inkasso-deildinni á síðustu leiktíð.

Ég ætla að mennta mig meira að loknu stúdentsprófi og ég hef áhuga á að komast í háskóla í Bandaríkjunum

„Markmiðið er að komast í A-landsliðið og ég hef stefnt að því lengi. Ég ætla að mennta mig meira að loknu stúdentsprófi og ég hef áhuga á að komast í háskóla í Bandaríkjunum. Næringarfræði er fag sem heillar mig. Að því loknu langar mig að reyna fyrir mér í atvinnumennsku ef það er í boði – og lifa heilsusamlegu lífi og ná sem allra lengst í fótboltanum,“ sagði Bergdís Fanney við Skagafréttir.

 

Auglýsing



Auglýsing