Skagamaðurinn Arnór Smárason lauk tímabilinu í norsku úrvalsdeildinni í knattspyrnu með glæsilegum hætti um s.l. helgi. Arnór skoraði eitt mark og lagði upp annað í 2-0 sigri Lilleström gegn Kristiansund í lokaumferðinni.
Arnór, sem er þrítugur, kom til Lilleström í sumar frá Hammarby í Svíþjóð en samningur hans við norska liðið rennur út á næstunni.
Arnór átti stóran þátt í því að Lilleström hélt sæti sínu í deildinni en hann skoraði 7 mörk í 13 leikjum.
Framhaldið hjá Arnóri er óljóst en hann segir í viðtali við fotbolti.net að áhugi sé frá nokkrum liðum og hann ætli sér að velja rétta liðið.
„Það væri best að fara í lið þar sem maður getur aðeins sest að og tekið þátt í spennandi verkefni. Mér finnst ég vera í besta formi sem ég hef verið í á ferlinum. Ég vona að ég eigi að minnsta kosti 5-6 góð ár eftir. Ég er ekki á leiðinni heim strax,“ segir Arnór í viðtali við fotbolti.net
Arnór fór árið 2004 til Hollands í atvinnumennsku en þá var hann á 16. ári. Arnór lék með unglingaliði Heerenveen 2004-2008 og með aðalliði félagsins 2008-2010.
Hann lék með Esjberg í Danmörku 2010-2013, Helsingborg í Svíþjóð 2013-2015, hann var lánaður til Torpedo í Rússlandi áður en hann samdi við Hammarby árið 2016.
Auglýsing
Auglýsing