„Ég lærði mína lexíu“ – „Ölli“ hvetur unga ökumenn til að fara varlega

Auglýsing



„Þetta fór nú allt saman vel og sem betur fer slasaðist enginn. Mig minnir að þetta hafi gerst á föstudeginum 13. febrúar árið 2004. Pabbi átti bílinn og hann var frekar nýlegur,“ segir Ágúst Örlaugur Magnússon við Skagafréttir þegar hann rifjaði upp hvað hafði gerst þegar þessar myndir voru teknar á sínum tíma.

Ágúst Örlaugur missti stjórn á bílnum og keyrði á húsið nr. 33 við Skagabraut – en óhappið vakti mikla athygli á sínum tíma.

Ágúst Örlaugur hvetur unga ökumenn á Akranesi og um land allt að fara varlega í umferðinni.

Skagamaðurinn, sem flestir þekkja sem „Ölli“, er fæddur árið 1986 og var hann í fremstu röð í íslenskri knattspyrnu á sínum yngri árum.  Skagafréttir óskuðu eftir því að fá söguna alla frá „Ölla“ og þar kemur ýmislegt áhugavert fram.

Það er betra að mæta of seint en að taka svona heimskar ákvarðanir til þess eins að mæta í ljósatíma

„Það er kannski í lagi að segja frá þessu núna og vera víti til varnaðar fyrir aðra unga ökumenn. Ég var of seinn í ljósatíma í íþróttahúsinu við Jaðarsbakka. Mér fannst bíllinn fyrir framan mig vera frekar rólegur í tíðinni.

Ég tók þá fáránlegu ákvörðun að fara framúr. Bílstjórinn beygði til vinstri, inn í innkeyrsluna á Skagabraut 33 – án þess að gefa stefnuljós. Ég keyrði því beint inn í hliðina á bílnum, við fórum í gegnum girðingu, og ég ók á húsið.

Þetta var ekki skemmtileg upplifun og ég hafði heppnina með mér að slasa ekki neinn í þessu óhappi,“ segir Ágúst Örlaugur.

Skömmu áður en óhappið átti sér stað voru börn að leik á þessu svæði. „Ég lærði mína lexíu á þessu. Það er betra að mæta of seint en að taka svona heimskar ákvarðanir til þess eins að mæta í ljósatíma,“ bætti „Ölli“ við.

Vilhjálmur Þorsteinsson var búsettur í húsinu við Skagabraut 33 á þessum tíma. Í viðtali við Morgunblaðið sem birt var 14. febrúar 2004 segir Vilhjálmur að hann hávaðinn hafi verið mikill þegar bifreiðin skall á húsinu.

„Ég hélt að það væri jarðskjálfti eða eitthvað hefði sprungið í loft upp í næsta nágrenni. Þvílíkur var hávaðinn og húsið nötraði,„sagði Vilhjálmur Þorsteinsson, íbúi á Skagabraut 33 á Akranesi, en hann var heima við um miðjan dag í gær er bifreið var ekið af miklu afli á húsið hans.

„Ég fór beinustu leið út og þá sá ég að bifreið var klesst upp við húsið og önnur bifreið við hlið hennar. Það var lán í óláni að enginn skyldi slasast og hér hefði getað farið mun verr.“

 

Auglýsing



Auglýsing