Ruth og Þorpið fengu Múrbrjótinn ı tómstundastarf fyrir margbreytilega hópa skilar árangri

AuglýsingRuth Jörgensdóttir Rauterberg og Frístundamiðstöðin Þorpið fengu Múrbrjótinn á Alþjóðlegum degi fatlaðs fólks þann 3. desember s.l.

Á móti verðlaununum tóku Aldís Helga Egilsdóttir, Heiðrún Janusardóttir, verkefnastjóri æskulýðs- og forvarnamála, Ívar Hrafn Jónsson, Ruth  Jörgensdóttir Rauterberg, Ólafur Elías Harðarson og Lúðvík Gunnarsson deildarstjóri Þorpsins.

Það eru Landssamtökin Þroskahjálp sem veita þessa viðurkenningu. Samtökin hafa haldið upp á daginn með því að veita Múrbrjótinn aðilum eða verkefnum sem að mati samtakanna brjóta niður múra í réttindamálum og viðhorfum til fatlaðs fólks og stuðla þannig að því að fatlað fólk verði fullgildir þátttakendur í samfélaginu og hafi tækifæri til að lifa eðlilegu lífi til jafns við aðra.

Þorpið á Akranesi og Ruth, sem er þroskaþjálfi og aðjúnkt við Menntavísindasviðs HÍ, fengu Múrbrjótinn 2018 fyrir að þróa tómstundastarf með margbreytilegum hópum sem byggir á samvinnu, þar sem allir geta tekið virkan þátt, tileinkað sér nýja þekkingu og öðlast ný sjónarhorn.


Frístundamiðstöðin Þorpið sinnir frístundastarfi og forvörnum með börnum og ungmennum. Í því starfi er lögð mikil áhersla á að mæta þörfum hvers og eins og miða starfsemina út frá þörfum samfélagsins hverju sinni. Í öllu starfi Þorpsins er gert ráð fyrir margbreytileika mannlífsins og hver og einn getur fengið hvatningu og stuðning við hæfi í sínu tómstundastarfi.

Á undanförnum árum hefur starfsemi Þorpsins þróast. Samhliða þessari þróun rannsakaði Ruth, með stuðningi og samstarfi við stjórnendur Þorpsins, með þátttöku-starfendarannsókn frístundastarfið þar sem meginmarkmiði var að skapa vettvang fyrir samvinnu barna og leiðbeinenda frístundamiðstöðvarinnar í þeim tilgangi að þróa tómstundastarf með margbreytilegan hóp 10–12 ára barna.

Meginniðurstaða rannsóknarinnar Ruthar er að hugmyndafræði eins samfélags fyrir alla (e. inclusion) þarf að koma innan frá. Innleiðing á hugmyndafræðinni og tómstundastarfi með margbreytilega hópa barna er námsferli sem byggir á samvinnu sem felst í því að allir samstarfsaðilar taki virkan þátt, öðlast ný sjónarhorn og læra. Þannig verður þróunin í starfinu í gegnum samvinnu, þar sem allir leggja sig fram um að nýta tækifærin til þátttöku, takast á við hindranir, skilja hver annan og tileinka sér viðhorf og gildi og horfa á margbreytileikann sem tækifæri.

Eitt samfélag fyrir alla er hugsjón, tækifæri, verkefni og áskorun sem þarf frumkvæði, sveigjanleika, umburðarlyndi, sköpunarkraft og hugrekki.

Í kjölfar rannsóknarinnar hefur þessi hugsjón verið leiðandi í öllu starfi Þorpsins með það markmiði að skapa samveru barna og ungmenna tilgang og rými, þar sem hver og einn fær tækifæri til þess að þróa sína hæfileika og iðka sín áhugamál með öðrum. Má þar nefna Frístund fyrir 8 og 9 ára börn, sumarnámskeið fyrir 6 til 12 ára börn, Klúbbastarf fyrir 10 til 12 ára börn, félagsmiðstöðvarstarf fyrir 13 til 16 ára unglinga og ungmennahús fyrir ungt fólk á aldrinum 16 til 25 ára. Í þetta fjölbreytilega starf eru allir velkomnir, þar sem allt starfsfólk Þorpsins er reiðubúið til þess að leggja sig fram við að finna leiðir til þátttöku fyrir alla.

Í samvinnu Ruthar, velferðar- og mannréttindasviðs og Þorpsins hófst nýtt verkefni á undanförnum mánuðum, frístundaþjónusta fyrir ungt fullorðið fólk, og þróun þess fer fram í náinni samvinnu við unga fólkið sem nýtur sér þjónustuna.

Þorpið hefur staðið fyrir Fræðslumorgnum fyrir starfsfólk sitt og aðra með það að markmiði að þátttakendur öðlist nauðsynlega þekkingu og færni til þess geta skapað umhverfi sem einkennist af virðingu fyrir margbreytileika, félagslega viðurkenningu, þátttöku allra og samvinnu.

Á móti verðlaununum tóku Ruth og Heiðrún Janusardóttir, verkefnastjóri æskulýðs- og forvarnamála. Einnig þau Lúðvík Gunnarsson, Aldís Helga Egilsdóttir, Ívar Hrafn Jónsson og Ólafur Elías Harðarson, sem hafa tekið þátt í að þróa starf Þorpsins frá upphafi, þ.e. frá haustinu 2007 þegar þau voru í 5. bekk.

Vorið 2017 skrifuðu Ívar, Óli og Ruth grein í tímarit Þroskahjálpar sem heitir : Frítíminn skiptir máli. Þar segja þau m.a.: Með því að taka þátt í tómstundastarfi þá getum við kynnst öðrum. Einnig geta aðrir fengið að kynnast okkur. Við getum kennt öðrum hvernig við erum og hvernig við gerum hlutina. Við getum lært af öðrum og séð hvaða leiðir þeir fara í sínu lífi. Þá á sér stað nám og við verðum öll klárari í að vera saman.

AuglýsingAuglýsing