Ísak Bergmann: „Rétti kosturinn á þessum tímapunkti“

Auglýsing



„Mér líst mjög vel á þetta allt saman en ég væri að ljúga ef ég segi ekki frá því að það var erfitt að taka þessa ákvörðun.

Það voru fleiri félög sem höfðu áhuga en að mínu mati var þetta rétti kosturinn fyrir mig á þessum tímapunkti,“ segir Ísak Bergmann Jóhannesson við Skagafréttir.

Ísak Bergmann (2003) og frændi hans, Oliver Stefánsson (2002), eru á förum til IFK Norrköping í Svíþjóð. ÍA og IFK Norrköping hafa komist að samkomulagi um kaupverð á þessum ungu knattspyrnumönnum sem voru samningsbundnir ÍA.

Forráðamenn IFK Norrköping eru án efa hæstánægðir með niðurstöðuna – en Arnór Sigurðsson var leikmaður IFK Norrköping  áður en félagið seldi hann til CSKA Moskva fyrir metfé.

„Við verðum í fjarnámi í Fjölbrautaskóla Vesturlands og ætlum að halda áfram að læra samhliða fótboltanum. Við munum einnig læra nýtt tungmál og það er spennandi. Fjölskylda Olivers mun flytja með okkur út.  Við munum búa öll saman í íbúð nálægt vellinum. Við erum systrasynir og höfum alist upp saman og alltaf í fótbolta þegar tími gefst til. Þetta verður spennandi fyrir okkur öll,“ segir Ísak.

Ísak Bergmann og Oliver munu æfa með aðallið IFK Norrköping og segir Ísak að það sé undir þeim komið hvað framtíðin ber í skauti sér.

„Ég hef stefnt lengi að því að verða atvinnumaður í knattspyrnu. Að mínu mati er rétta skrefið að fara til IFK Norrköping,“ segir Ísak Bergmann en hann fer til Svíþjóðar í byrjun ársins 2019.

Ef þeir komast ekki í aðalliðið munu þeir leika með Sylvia sem er venslalið IFK Norrköping sem leikur í 4. deild.

Eins og áður segir eru Ísak Bergmann og Oliver systrasynir. Mæður þeirra eru Jófríður María og Magnea – Guðlaugsdætur.  Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari mfl. karla hjá ÍA, er faðir Ísaks Bergmanns.

Oliver ætti að þekkja eitthvað til í Norrköping en Stefán Þórðarson faðir hans er goðsögn hjá félaginu. Stefán lék með IFK Norrköping á árunum 2005-2007 og aftur tímabilið 2009.

 

Auglýsing



Auglýsing