Jólaævintýrið í Garðalundi framundan – mikil eftirvænting hjá þeim yngstu

AuglýsingJólaævintýrið í Garðalundi hefur svo sannarlega slegið í gegn á undanförnum tveimur árum sem þessi viðburður hefur farið fram. Um næstu helgi eða laugardaginn 15. desember hefst Jólaævintýrið stundvíslega kl. 19.00.

Aðsóknin á undanförnum tveimur árum hefur farið fram úr björtustu vonum þeirra sem standa á bak við verkefnið. Hátt í 2000 gestir komu í fyrra í Garðalund og miðað við veðurspá fyrir næstu helgi eru allar líkur á því að það met sé í hættu.

„Jólaævintýrið er ætlað þeim sem vita að jólasveinninn er til og aðstandendur þeirra. Eftirvæntingin er því mikil hjá þessum stóra hóp.  Það eitt að fá að fara út eftir kvöldmat skapar eftirvæntingu. Fjölskyldurnar koma flestar gangandi og nota vasa- og ennisljós til að lýsa upp leiðina.

 

Boðið verður upp á Strætóferð frá Akratorgi 18:40 og Stillholti 18:50.

 

Þegar fólk er komið í Garðalund kemur í ljós að það leynist margt í skóginum stóra þar á meðal er þar risi, alls konar álfar, syngjandi tröllafjölskylda, skógardýr, jólaköttur, jólakettlingur og auðvitað,“ segir Hlédís Sveinsdóttir við Skagafréttir en hún er ein af þeim sem standa að þessum stóra viðburði.

Minningu Guðbjarts Hannessonar, fyrrum skólastjóra, ráðherra og alþingismanns, er haldið á lofti í Jólaævintýrinu – líkt og undanfarin tvö ár. Kveikt verður á ljósunum hans Gutta í Garðalundi og markar sú athöfn upphafið á Jólaævintýrinu.

Skaginn 3X býður upp á heitt súkkulaði og Íslandsbanki býður upp á far með strætó frá Akratorgi og Stillholti. Gestir fara síðan um skóræktina og upplifa það sem þar fer fram. Þegar jólasveinninn er fundinn safnast allir saman aftur á upphafsstað – við sviðið og þar endar þetta með því að allir syngja saman „Bráðum koma blessuð jólin,“ segir Hlédís Sveinsdóttir að lokum.

AuglýsingAuglýsing