Eiki Hauks er með sterka tengingu á Skagann – „Jólin til þín“ í Bíóhöllinni á föstudaginn

AuglýsingEiríkur Hauksson verður á ferð og flugi um landið í desember ásamt fríðum hópi tónlistarmanna í verkefninu „Jólin til þín“.  En þetta eru einu stóru jólatónleikarnir sem ferðast um landið þetta árið.

Tónleikaröðin er skipulögð af Eastland viðburðum en Austfirðingarnir Guðjón Birgir og Jón Hilmar og Skagamaðurinn Birgir Þórisson standa að tónleikunum.

Jólin til þín verða á 10 stöðum um landið og þar á meðal á Akranesi föstudaginn 14. desember.  Eiríkur hefur búið í Noregi síðan 1988 og ekki laust við örlítin hreim þegar Skagafréttir heyrðu í honum á dögunum.

Hvað hefur þú verið að fást við síðastliðin ár í Noregi og er á döfinni að flytja aftur heim? 

„Ég flutti til Noregs í blábyrjun september 1988. Tja, ástæðan fyrir thví var hreinlega sú að ég varð leiður á mínu pop-brölti sem ég reyndar fékk nokkuð óvænt í fangið, ef svo má segja. Lögin Gull og Gaggó-Vest slógu í gegn svo um munaði 1985 og svo kom Júró ævintýrið í kjölfarið. Árið 1984 slúttaði ég heavy-metal bandinu mínu „Drysill“ en á þeirri plötu er lag eitt „Little Star“ sem eitt og sér er grunnur þess að ég flutti. Ég hafði tekið 26 sek. instrumental lag, „Classic Romance“ með norska bandinu TNT og gert texta vid það og útsett. Einhver hvíslaði að mér að þetta væri brot á upphafsrétti lagahöfundar og eins vel upp alinn og ég er þá sendi ég bréf með afsökunarbeiðni og útskýrði mitt mál. Eftir smá bréfaskriftir og samninga greiddist úr þessu og var skrifuð grein í tónlistarblað hér ytra og þannig komust strákarnir í power-metalbandinu Artch í samband við mig.

Svo held ég alltaf með Skagamönnum í fótboltanum

Margt hefur á dagana drifið síðan þá og núna er ég t.d. söngvari í tveimur prog-rokk sveitum í viðbót við að vera „hired-gun“ út um allt. Frá árinu 2013 hef ég tekið þátt í prósjekti sem kallar sig „It was 50 years ago today“.

Hér er allur Bítla-katalógurinn tekinn frá ári til árs og erum við núna að spila The White Album + allar smáskífur. Þetta dæmi klárast 2019 með Abbey Road og Let It Be. Þetta er nú bara brot af því sem ég er að dúllast í, og nei það er ekkert á döfinni að flytja heim – ég er hreinlega allt of upptekinn með mína tónlist hérna hinum megin við „fjörðinn“.

Þú átt einhverja tengingu á Skagann er það ekki? Segðu aðeins frá því..

Jú, ég söng á tímabili með strákunum í hljómsveitinni Tíbrá.

Þetta var síðasta hljómsveitin sem ég var í áður en ég flutti til Noregs.

Þar voru þeir Flosi Einarsson, Eðvarð Lárusson, Eiríkur Guðmundsson og Jakob R. Garðarsson.

Svo var ég  alltaf í sveit sem unglingur á Kjaranstöðum en þar býr einmitt móðursysti mín svo ég á ættartengsl þangað líka. Svo held ég alltaf með Skagamönnum í fótboltanum svo framarlega sem þeir spila ekki við Þrótt. Ef heimaleikur var á Skaganum var flórinn mokaður í flýti og hlaupið 7 km á völlin til að missa ekki af neinu.

Tíbrá.

Segðu okkur aðeins frá Jólin til þín tónleikaröðinni.

„Ég er löngu byrjaður að telja dagana og undirbúningur er á fullu. Svo skilst mér að allt sé á kafi í snjó – svo þetta verdur kannski enn meira ævintýri en madur gerði sér grein fyrir. Hér hjá mér hefur ekki sést snjókorn á lofti, svo það verdur bara flott að upplifa fannhvíta jörð.

Mér skilst að það séu ekki aðrir að þvælast um með hljómsveit og hljóðkerfi um landið svo þetta verður mjög spennandi. Einu stóru jólatónleikarnir sem ferðast um. Við heimsækjum 10 staði víðsvegar um landið og ásamt mér verða þær Regína Ósk, Skagastelpan Rakel Páls og Unnur Birna og hljómsveitin skipuð úrvals fólki. Ég hef ekki sungið með þeim Unni og Rakel áður svo ég hlakka mikið til – ég hef heyrt þær syngja og það er mikið talað um þær í bransanum.  Þær eru fyrsta flokks tónlistarkonur. Ég og Regína höfum unnið saman áður og það er alltaf jafn gaman að syngja með henni.“

Hvað er það í þínum jólavenjum sem segir þér að nú séu komin jól.

Í ár er það „Jólin til þín“ sem marka komu Jólanna fyrir mig. Annars er það oft ekki fyrr en á Þorláks(skötu)messu sem að andinn hrynur yfir mann. Þá er tréð skreytt og síðan Skatan tekin fyrir.

Það er ekki sjálfsagt mál að fara að heiman næstum allan desembermánuð til þessa að syngja fyrir Íslendinga. Ertu ekkert smeikur við að komast ekki heim um jólin?

„Ekkert smeykur. Ef ég verð veðurtepptur þá er nóg af dyrum til ad banka upp á. Og þar sem ég segi „heim“ bæði um Noreg og Ísland, þá verða þetta potttþétt „Heima-Jól“.

Hlakka til ad sjá ykkur öll, kæru landsmenn og konur. Ást og friður… Eiki Hauks

Jólin til þín verða um allt land í desember.
Tónleikar á suðvesturhorninu verða miðvikudaginn 12. desember í Lindakirkju (Kópavogi), 13. desember í Hveragerðiskirkju og föstudaginn 14. desember í Bíóhöllinni.

Nánari upplýsingar og miðasala á hér:

AuglýsingAuglýsing